Enski boltinn

Enska augna­blikið: Englar og djöflar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ítalinn skrautlegi Paolo Di Canio sýndi á sér ýmsar hliðar á tíma hans í ensku úrvalsdeildinni. Hann var verðlaunaður af FIFA fyrir íþróttamennsku vegna atviks í leik við Everton um aldamótin.
Ítalinn skrautlegi Paolo Di Canio sýndi á sér ýmsar hliðar á tíma hans í ensku úrvalsdeildinni. Hann var verðlaunaður af FIFA fyrir íþróttamennsku vegna atviks í leik við Everton um aldamótin. Samsett/Vísir

Á morgun fer boltinn að rúlla í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Sýn Sport. Af því tilefni munu sérfræðingar rifja upp eftirminnileg augnablik úr deildinni. Paolo Di Canio er ofarlega á lista Ólafs Kristjánssonar, enda eftirminnilegur maður og erfitt að velja eitt augnablik Ítalans yfir annað.

Di Canio er á meðal eftirtektarverðari fótboltamanna sem hafa spilað í ensku úrvalsdeildinni sem sýnir sig í því að Ólafur er annar sérfræðingur Sýnar Sport sem nefnir hann, á eftir Rikka G, sem keypti sér Sheffield Wednesday treyju merkta honum á unga aldri.

Atvikið þegar Di Canio hrinti dómara var rifjað upp fyrr í vikunni en það er eitt margra augnablika sem sitja eftir hjá áhugamönnum um enska boltann. Stórkostlegt klippu mark hans um aldamótin og ekki síður þegar hann sýndi af sér slíka prúðmennsku að hann hlaut fyrir sérstök verðlaun frá FIFA.

Ólafur Kristjánsson rifjar upp söguna af því þegar Di Canio gjörbreytti ímynd sinni, djöfullinn sem var skyndilega líkt og engill.

„Eitt af mínum minnistæðustu augnablikum í ensku úrvalsdeildinni átti sér stað í desember 2000 á Goodison Park. Miðpunkturinn var á þeim tíma hinn umdeildi en hæfileikaríki Ítali Paolo Di Canio. Ítalinn var þá leikmaður West Ham og Hamrarnir voru í heimsókn hjá Everton á hroll köldum laugardegi í desember,“ segir Ólafur frá.

„Leikurinn var í lás og staðan 1-1 þegar West Ham kemst í sókn og Paul Gerrard markvörður Everton rýkur út fyrir teiginn vinstra megin til að stöðva sóknarmann West Ham. Í tæklingunni meiðist Gerrard og liggur eftir, West Ham nær boltanum og kemur honum fyrir markið, þar sem Di Canio er í stöðu til að skjóta á markið,“

Klippa: Enska augnablikið: Dæmalaus Di Canio

„Þá gerist hið eftirminnilega og óvænta atvik, úr óvæntri átt, sem fékk fótbolta heiminn til að líta Di Canio öðrum augum. Í stað þess að nýta sér að Gerrard, markvörður Everton, var ekki í markinu og skjóta á markið, þá grípur Ítalinn boltann og biðlar til dómarans að stöðva leikinn, vegna meiðsla Gerrards,“

„Þessi athöfn Di Canio, að nýta sér ekki óhapp Gerrards til að skora og þar með tryggja liði sínu líklega þrjú stig, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Orðspor Di Canio hafði ekki verið upp á marga fiska, bæði vegna pólitískra skoðana hans og hegðunar á vellinum. Hann hafði til að mynda verið dæmdur í ellefu leikja bann árið 1998 fyrir að hrinda dómara sem hafði vísað honum af velli fyrir handalögmál í leik með Sheffield Wednesday gegn Arsenal,“

„Eftirminnilegt atvik og persónuleiki, Di Canio, sem náði að ramma inn það „góða“ og hið „illa“ á sínum tíma í úrvalsdeildinni.“

Sagan segir að skaphundurinn Stuart Pearce hafi ekki verið parsáttur við athæfi Di Canio í leiknum gegn Everton.Phil Cole/ALLSPORT

„Það sem sat eftir hjá mér var þessi gríðarlega andstaða sem kom fram hjá Di Canio, miðað við „fyrri kynni“, sem og umræðan og hinar skiptu skoðanir á „fair play“ sem fylgdu í kjölfarið. Í ísköldum úrslitamiðuðum heimi ensku úrvalsdeildarinnar og fótbolta „iðnaðarins“, knúnum áfram af peningum og úrslitum, voru menn ekki á eitt sáttir um þetta athæfi Ítalans. Segir sagan til að mynda að harðhausinn Stuart Pearce, liðsfélagi Di Canio, hafi gjörsamlega tryllst í klefanum eftir leik og hótað því að aðskilja höfuð og búk hins ítalska,“

Ég held hins vegar að þegar tíminn hefur liðið og meiri fjarlægð kemur á atvikið, þá sitji eftir virðing og undirstrikun á því hversu marglaga persónuleiki Di Canio var eða er,“ segir Ólafur.

Íþróttamennsku Paolo Di Canio má sjá í spilaranum, sem og dómarahrindinguna, frábæru klippuna og mörg önnur tilþrif kappans frá tíma hans í ensku úrvalsdeildinni.

Óli Kristjáns verður sérfræðingur í þáttagerð Sýnar Sport í kringum enska boltann í vetur.

Hér má tryggja sér áskrift að enska boltanum hjá Sýn Sport.


Tengdar fréttir

Enska augnablikið: AGUERO!!

Enski boltinn fer að rúlla á Sýn Sport á morgun. Af því tilefni munu sérfræðingar rifja upp eftirminnileg augnablik úr deildinni. Landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson átti erfitt með að velja en frægt sigurmark Sergio Aguero varð fyrir valinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×