Enski boltinn

Gjör­breytt fram­lína Man United með til­komu Šeško

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á leið til Manchester.
Á leið til Manchester. Ulrik Pedersen/Getty Images

Þýska knattspyrnufélagið RB Leipzig hefur samþykkt tilboð Manchester United í framherjann Benjamin Šeško. Með komu hans á Old Trafford hefur framlína liðsins tekið stakkaskiptum í sumar.

RB Leipzig hefur samþykkt tilboð upp á  rúma tólf milljarða íslenskra króna. Framherjinn á nú eftir að standast læknisskoðun og þá ætti allt að vera frágengið. Hann yrði þriðji sóknarþenkjandi leikmaðurinn sem Ruben Amorim fær til Man United í sumar.

Šeško er 22 ára gamall Slóveni sem gekk til liðs við RB Leipzig frá systurfélaginu Red Bull Salzbug árið 2023. Í 87 leikjum fyrir Leipzig hefur hann skorað 39 mörk og lagt upp átta til viðbótar.

Framherjinn er engin smásmíði – 1.96 metri á hæð – og myndi endanlega gjörbreyta framlínu Amorim. Það er ljóst að Šeško er ekki sóttur til að vera varaskeifa og það sama á við um þá Matheuc Cunha, sem kom frá Úlfunum, og Bryan Mbeumo, sem kom frá Brentford.

Þarna hefur Amorim sótt þrjá menn sem munu að öllum líkindum spila í fremstu þremur stöðunum í 3-4-2-1 leikkerfinu sem Portúgalinn elskar. Það þýðir jafnframt að Bruno Fernandes yrði annar af „djúpu“ miðjumönnunum.

Orðið á götunni er að Rasmus Höjlund sé til sölu á ágætis afslætti miðað við hvað Man United borgaði fyrir hann sumarið 2023. Það er líklegt að Rauðu djöflarnir þurfi að selja eitthvað af mönnum áður en glugginn lokar en fjöldi leikmanna er til sölu. Ásamt Höjlund má þar nefna Antony, Jadon Sancho, Alejandro Garnacho og Tyrell Malacia.

Allir 380 leikir ensku úrvalsdeildarinnar verða sýndir beint á Sýn Sport.

Hér má tryggja sér áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×