Handbolti

Leður­blökur að trufla handboltafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leðurblökurnar eiga sinn samastað en danska handboltafélagið vill fleiri bílastæði í kringum höllina.
Leðurblökurnar eiga sinn samastað en danska handboltafélagið vill fleiri bílastæði í kringum höllina. Getty/Patrick Süphke/ Soumyabrata Roy

Danska handboltafélagið Aalborg Håndbold er í fremstu röð og vinsælt á norður Jótlandi. Leikir liðsins eru vel sóttir en vinsældirnar skapa bílastæðavandræði og lausn á þeim er ekki sjáanleg vegna náttúruverndarsjónarmiða.

Gestir á leikjum Álaborgarliðsins þurfa nú að leggja bílum sínum á grasflötum og þar sem þeir koma bílunum sinum í kringum Sparekassen höllina með allri þeirri hættu og því ónæði sem það skapar.

Félagið hafði fundið lausn í samstarfi við borgaryfirvöld í Álaborg og það var búið að skipuleggja nýtt bílastæði fyrir fjögur hundruð bíla. 

Álaborgarfólk þurfti hins vegar að hætta við þau plön vegna náttúruverndarsjónarmiða og ástæðan eru leðurblökur sem búa á svæðinu. Danska ríkisútvarpið segir frá.

Reglur Evrópusambandsins eru þannig að borgaryfirvöldum ber skylda að passa upp á svæði þar sem dýr eins og leðurblökur hafa komið sér vel fyrir á.

Borgaryfirvöld eru enn að leita að lausn og það kemur til greina að reyna tæla leðurblökurnar inn á önnur svæði með því að koma þeim fyrir í svokölluðum leðurblökuhótelum.

„Við erum að reyna að gera svæði í nágrenninu aðlagandi fyrir þær svo að þær verði þar frekar en hér. Vandamálið er að þær eru með vængi og það er erfitt að koma í veg fyrir að þær fljúgi bara í burtu,“ sagði borgarfulltrúinn Jan Nymark Thaysen við TV 2 Nord.

Sparekassen Danmark Arena tekur 5.500 manns á handboltaleikjum en það fara líka fram aðrar íþróttir og tónlistarviðburðir í höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×