Enski boltinn

Gæti enn spilað í úr­vals­deildinni eftir að hafa fallið þrí­vegis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ramsdale gæti verið á leið til norðurhluta Englands.
Ramsdale gæti verið á leið til norðurhluta Englands. EPA/ADAM VAUGHAN

Markvörðurinn Aaron Ramsdale hefur fallið þrívegis úr ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu á ferli sínum, nú síðast með Southampton síðasta vor. Ramsdale gæti hins vegar fengið eitt tækifæri enn í úrvalsdeildinni þar sem Newcastle United vill fá hann í sínar raðir.

Newcastle, þrátt fyrir að vera með fimm markverði á launaskrá sinni, hefur verið á höttunum á eftir James Trafford í allt sumar. Trafford hefur hins vegar ákveðið að yfirgefa Burnley og semja við uppeldisfélag sitt Manchester City.

Vegna þessa hefur Newcastle snúið sér að hinum 27 ára gamla Ramsdale. Samkvæmt Sky Sports væri um að ræða lánssamning með möguleika á kaupum að tímabilinu loknu. Ætti Ramsdale að keppa við Nick Pope um stöðu aðalmarkvarðar hjá félaginu.

Ramsdale, sem var á mála hjá Arsenal frá 2021-24, hefur einnig spilað fyrir – og fallið með – Bournemouth og Sheffield United. Þá lék hann um tíma með Chesterfield og Wimbledon á láni.

Ramsdale á að baki fimm A-landsleiki fyrir England sem og 34 leiki fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×