Fótbolti

Kónga­fólkið eys lofi yfir enska liðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karl III Bretakonungur hrósaði enska kvennalandsliðinu í hástert.
Karl III Bretakonungur hrósaði enska kvennalandsliðinu í hástert. Samsett

Eftir sigur enska landsliðsins á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu hefur hamingjuóskunum rignt yfir liðið. Breska konungsfjölskyldan lét ekki sitt eftir liggja.

Enska kvennalandsliðið vann frækinn sigur gegn heimsmeisturum Spánar í úrslitaleik EM sem fram fór í gær. Jafnt var á öllum tölum eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og því réðust úrslitin ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni.

Með sigrinum vörðu þær ensku því Evrópumeistaratitilinn sem þær unnu fyrir þremur árum á heimavelli og eðlilega hefur fólk keppst við að senda þeim hamingjuóskir.

Karl III Bretakonungur sendi liðinu til að mynda falleg skilaboð eftir sigurinn.

„Í fleiri ár en mig langar að muna hafa enskir stuðningsmenn sungið lagið fræga um að fótboltinn sé að koma heim,“ ritaði konungurinn.

„Þegar þið komið aftur heim með bikarinn sem þið unnuð á Wembley fyrir þremur árum er það uppspretta mikils stolts, með íþróttahæfni og magnaðri liðsheild, að Ljónynjuarnar hafa staðið við þessi orð.“

„Það er þess vegna sem þið eigið innilegar þakkir og aðdáun allrar fjöldkyldu minnar skilið.“

„Vel gert Ljónynjur. Næsta verkefni er svo að koma heim með heimsmeistaratitilinn 2027 ef þið getið.“

Konungurinn er þó ekki sá eini sem hefur sent liðinu hamingjuóskir. Vilhjálmur prins og Karlotta prinsessa fylgdust með leiknum úr stúkunni og sögðu að þau „gætu ekki verið stoltari“ af liðinu og Keir Starmer, forsætisráðherra, segir að liðið hafi verið að skrifa söguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×