Körfubolti

Shaq lofar að mæta í kjól ef Gobert verður valinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O’Neal lofaði að klæðast kjólnum sem Charles Barkley er í á þessari mynd.
Shaquille O’Neal lofaði að klæðast kjólnum sem Charles Barkley er í á þessari mynd. Skjámynd/courtsidebuzzig

Shaquille O’Neal er ekkert að fara í felur með það að hann er ekki mikill aðdáandi franska miðherjans Rudy Gobert.

Gobert er einn launahæsti leikmaður NBA deildarinnar en hann spilar nú með Minnesota Timberwolves en var áður hjá Utah Jazz.

Gobert hefur þegar unnið sér inn 260 milljónir dollara á ferlinum og fær yfir hundrað milljónir dollara í laun fyrir næstu þrjú tímabil. Hann er að fá 35 milljónir fyrir 2025-26 tímabilið eða yfir fjóra milljarða íslenskra króna.

Shaq mætti í hlaðvarpsþátt á dögunum og talið barst að hinum 216 sentimetra háa Gobert sem var með 12,0 stig og 10,9 fráköst að meðaltali á síðustu leiktíð.

„Ég fjandakornið hata Rudy Gobert. Þessi andskoti er að fá 250 milljónir dollara í laun og hann á það ekki skilið,“ sagði Shaquille O’Neal.

„Ég sem formaður samtaka stórra manna lýsi því yfir að ef þú ætlar að fá svona vel borgað þá þarftu að spila þannig líka. Láta finna fyrir sér og leyfa ekki litlum hvítum gæjum að vaða yfir þig,“ sagði Shaq.

Gobert hefur spilað í NBA í tólf ár og hann hefur fjórum sinnum verið valinn besti varnarmaður ársins. Sjö sinnum hefur hann komist í varnarlið ársins. Það er líklegt að Gobert endi í Heiðurshöll körfuboltans eftir nokkur ár.

Þegar sú staðreynd var borin undir O’Neal þá varð hann fyrst virkilega hneykslaður.

„Ef Rudy Gobert verður valinn í Heiðurshöllina þá mæti ég í kjóla á athöfnina,“ sagði Shaq og sýndi meira segja kjólinn eins og sjá má með því að fletta hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×