Fótbolti

Chicharito biðst af­sökunar á karlrembunni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Chicharito ætlar að vinna í sjálfum sér.
Chicharito ætlar að vinna í sjálfum sér. Simon Barber/Getty Images

Javier Hernandez, einnig þekktur sem Chicharito og var áður leikmaður Manchester United og landsliðsfyrirliði Mexíkó, hefur beðist afsökunar á karlrembulegum ummælum sem hann var sektaður fyrir.

Chicharito birti nokkur myndbönd á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem hann sagði konur meðal annars vera að „bregðast samfélaginu“ og „eyðileggja karlmennskuna“ og bað þær um að „Ekki vera hræddar við að vera konur, leyfið ykkur að vera leiddar af karlmanni.“

Eftir að hafa hlotið mikla gagnrýni og verið sektaður af mexíkóska knattspyrnusambandinu baðst hann svo afsökunar í færslu á Instagram.

Hann segir ætlun sína aldrei hafa verið að særa eða móðga.

„Ég sé mikið eftir uppnáminu og óþægindunum sem ummæli mín hafa valdið… Ég mun nýta þetta tækifæri til að læra, skilja og vinna í sjálfum mér“ segir Chicharito.

Chicharito er markahæsti landsliðsmaður Mexíkó frá upphafi. Hann spilaði með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni frá 2010-14 og sneri aftur í deildina sem leikmaður West Ham árið 2017 eftir stutt stopp hjá Real Madrid og Bayer Leverkusen.

Árið 2020 fór hann til Spánar og spilaði fyrir Sevilla, þaðan til Bandaríkjanna með LA Galaxy áður en leiðin lá heim til Chivas árið 2023.

Mexíkóska knattspyrnusambandið sektaði hann fyrir að brjóta reglur sambandsins og stuðla að stafrænu ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×