Körfubolti

Þjóð­verjar sendu ís­lensku strákana niður í B-deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Fannar Ingólfsson skoraði 25 stig á móti Þjóðverjum í dag.
Kristján Fannar Ingólfsson skoraði 25 stig á móti Þjóðverjum í dag. FIBA Basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla í körfubolta féll í B-deild Evrópukeppninnar í dag eftir tap á móti Þjóðverjum í leiknum um þrettánda sætið.

Liðin í fjórtánda, fimmtánda og sextánda sæti féllu úr A-deildinni.

Íslenska liðið veitti Þjóðverjum verðuga mótstöðu í dag en gaf eftir í blálokin.

Ísland var 55-54 yfir en Þjóðverjar unnu síðustu þrjár mínútur leiksins 9-1 og tryggðu sér sjö stiga sigur, 63-56.

Kristján Fannar Ingólfsson var langatkvæðamestur í íslenska liðinu með 25 stig en hann skoraði fimm þrista.

Friðrik Leó Curtis var með 12 stig og 8 fráköst en enginn annar í íslenska liðinu skoraði meira en sex stig.

Þýska liðið byrjaði leikinn mun betur og vann fyrsta leikhlutann 17-11. Þjóðverja héldu Friðrik Leó stigalausum fyrstu fimmtán mínútur leiksins eða þangað til að hann minnkaði muninn í 15-23 um miðjan annan leikhluta.

Íslensku strákarnir minnkuðu muninn í fjögur stig fyrir hálfleik, 27-23, og komu síðan frábærlega inn í seinni hálfleikinn.

Kristján Fannar var mjög góður í sigrinum á Úkraínu í gær og hann var rosalegur í þriðja leikhlutanum þar sem hann skoraði þrettán stig eða tveimur meira en allt þýska liðið. Íslenska liðið vann þriðja leikhlutann 19-11 og tók frumkvæðið í leiknum.

Fjórði leikhlutinn var mjög jafn en þýska liðið átti meira inni í lokin og tókst að tryggja sér áframhaldandi veru í A-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×