Innlent

135 þúsund kjúk­lingar á Ás­mundar­stöðum í Ása­hreppi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurður Óskar Óskarsson, bústjóri á Ásmundarstöðum, sem er mjög ánægður í sínu starfi með sitt góða starfsfólk.
Sigurður Óskar Óskarsson, bústjóri á Ásmundarstöðum, sem er mjög ánægður í sínu starfi með sitt góða starfsfólk. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sextán eldishús fyrir kjúklingaræktun eru nú á Ásmundarstöðum í Ásahreppi á Suðurlandi en nú er samtals pláss fyrir um 135 þúsund fugla í húsunum á staðnum með tilkomu nýjasta hússins.

Nýlega var 16 eldishúsið á Ásmundarstöðum formlega tekið í notkun að viðstöddum gestum. Nýja húsið tekur um 13 þúsund fugla en bara í því húsi verða framleidd um 180 tonn af kjúklingakjöti á ári, sem eru þá um 80 þúsund máltíðir eða þar um bil.

„Þetta er heilmikið skipulag og umsjón um það að halda keðjunni gangandi frá eggi og alla leið í sláturhús,“ segir Sigurður Óskar Óskarsson, bústjóri á Ásmundarstöðum.

„Við erum búin að vera að byggja upp aðstöðuna hér á Ásmundarstöðum á undanförnum árum. Endurbæta eldri hús og laga til umhverfi og annað og það skilar sér bara einfaldlega í betri vöru og fuglunum líður betur og þá verður varan betri,“ segir Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Holta kjúklings hjá Reykjagarði á Hellu.

Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Holta kjúklings hjá Reykjagarði að ávarpa gesti við vígslu sextánda eldishússins á Ásmundarstöðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og neysla á kjúklingakjöti, hún er alltaf mjög mikil eða hvað?

„Hún fer alltaf vaxandi með hverju árinu, sem líður enda mjög þægilegur matur því það er hægt að búa til svo margt úr þessu,“ segir Guðmundur og bætir við í lokin.

„Til hamingju Ísland með að getað keypt góðan íslenskan kjúkling.“

Tvær hressar, sem mættu við opnunina, Fanney Ólöf (t.h.), sem býr á Kirkjubæjarklaustri og Guðrún S. Magnúsdóttir, sem býr í Bræðratungu í Bláskógabyggð.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Öll aðstaða á Ásmundarstöðum er til fyrirmyndar.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×