Körfubolti

Strákarnir unnu Slóvena á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Leó Curtis var frábær á móti Slóvenum í dag.
Friðrik Leó Curtis var frábær á móti Slóvenum í dag. FIBA Basketball

Íslenska tuttugu ára körfuboltalið karla fagnaði sínum fyrsta sigurleik í A-deild Evrópukeppninnar í dag.

Þetta var þriðji leikur liðsins en liðið hafði tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Serbíu og Frakklandi.

Ísland vann tveggja stiga sigur á Slóveníu í dag, 76-74, en strákarnir héldu út á móti þeim slóvensku sem skoruðu sex síðustu stig leiksins. Íslenska liðið átti frábæra fyrstu þrjá leikhluta og var tólf stigum yfir eftir þá, 58-46.

ÍR-ingurinn Friðrik Leó Curtis, sem spilar úti í bandarískum háskóla, var stigahæstur með 20 stig. Hann bætti við 11 fráköstum, 6 vörðum skotum og 4 stoðsendingum.

Stjörnumaðurinn Viktor Jónas Lúðvíksson var með 16 stig og Hilmir Arnarsson, sem nýverið gekk til liðs við Álftanes frá Haukum, var með 15 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.

KR-ingurinn Lars Erik Bragason skoraði 13 stig og Stjörnumaðurinn Kristján Fannar Ingólfsson var með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×