Körfubolti

Átti ein­stakan leik og biðinni frá alda­mótum að ljúka

Sindri Sverrisson skrifar
Tyrese Haliburton tapaði boltanum aldrei í nótt og átti algjöran stórleik.
Tyrese Haliburton tapaði boltanum aldrei í nótt og átti algjöran stórleik. Getty/Gregory Shamus

Það þarf ansi margt að ganga á til þess að það verði ekki Indiana Pacers og Oklahoma City Thunder sem spila um NBA-meistaratitilinn í ár. Bæði lið eru nú komin í 3-1 í einvígum sínum, í úrslitum austur- og vesturdeildar.

Tyrese Haliburton fór fyrir Indiana í nótt þegar liðið vann sinn þriðja sigur gegn New York Knicks og átti sérstaklega magnaðan fyrri hálfleik. Lokatölur 130-121 í Gainbridge Fieldhouse í Indiana.

Haliburton skoraði 20 stig, átti tíu stoðsendingar og tók átta fráköst bara í fyrri hálfleiknum, og var því nálægt því að ná þrefaldri tvennu áður en leikurinn var hálfnaður.

Hann var einnig öflugur í seinni hálfleiknum og endaði með 32 stig, 15 stoðsendingar og 12 fráköst, og það án þess að tapa boltanum einu sinni. Hann er þar með fyrsti leikmaðurinn til þess að ná 30-15-10-0 leik í úrslitakeppni NBA.

Indiana getur núna tryggt sig inn í úrslitin í næsta leik en hann verður í Madison Square Garden annað kvöld. Indiana hefur ekki komist í úrslitin síðan árið 2000.

„Mér fannst ég bregðast liðinu í leik þrjú [106-100 tapi á heimavelli] svo mér fannst mikilvægt að koma inn í þennan leik og láta til mín taka,“ sagði Haliburton eftir sigurinn í nótt.

„Strákarnir komu mér í stöður til að taka af skarið og spila minn leik. Þetta var stór sigur fyrir okkur,“ bætti hann við.

Pascal Siakam skoraði 30 stig og Bennedict Mathurin kom með 20 stig af bekknum fyrir Indiana sem endaði í 4. sæti austurdeildarinnar.

Jalen Brunson skoraði 31 stig fyrir New York en Karl-Anthony Towns, sem meiddist í vinstra hnénu annan leikinn í röð og var haltrandi í lokin, skoraði 24 stig og OG Anunoby 22.

„Við skoruðum 120 stig en vörnin okkar var ekki nógu góð,“ sagði Tom Thibodeau, þjálfari Knicks.

„Haliburton er frábær leikmaður. Það er ekki hægt að láta einstaklinga verjast frábærum leikmönnum í þessari deild. Allt liðið þarf að gera það. Og ef einn leikmaður er ekki að sinna sinni vinnu þá líta allir illa út,“ sagði þjálfarinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×