Körfubolti

EuroBasket aftur í fjórum löndum og Spánn stefnir á áhorfendamet

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Spænska landsliðið verður eitt af fjórum heimaliðum á EuroBasket 2029.
Spænska landsliðið verður eitt af fjórum heimaliðum á EuroBasket 2029. Gregory Shamus/Getty Images

EuroBasket 2029 verður haldið í höfuðborgum Spánar, Grikklands, Slóveníu og Eistlands. Stefnt er að áhorfendameti í opnunarleiknum, sem mun fara fram á Santiago Bernabeu í Madríd, fótboltavelli Real Madrid sem verður breytt í körfuboltavöll.

Alþjóðakörfuknattleikssambandið FIBA tilkynnti um ákvörðunina rétt áðan. Átta aðilar alls buðust til að halda mótið: Eistland, Finnland, Þýskaland (dró boð sitt til baka), Grikkland, Litáen, Niðurlönd, Slóvenía og Spánn.

Madríd, Aþena, Ljúblíana og Tallinn, höfuðborgir Spánar, Grikklands, Slóveníu og Eistlands munu hýsa mótið.

Þetta verður í annað sinn sem mótið er haldið í fjórum löndum en það verður gert í fyrsta sinn í sumar. EuroBasket 2025 fer fram í Kýpur, Finnlandi, Lettlandi og Póllandi. 

Fyrir viku síðan kynnti Spánn áætlanir sínar fyrir EuroBasket 2029. Þar kemur fram að leikir í bæði riðla- og útsláttarkeppni mótsins muni fara fram í höfuðborginni, Madríd.

Tveir leikvangar verða nýttir undir mótið: Movistar leikvangurinn sem hýsir heimaleiki Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni og EuroLeague, og Santiago Bernabeu, heimavelli fótboltaliðs Real Madrid, verður svo breytt í körfuboltavöll.

Real Madrid CF v Getafe CF - LaLiga EA Sports MADRID, SPAIN - SEPTEMBER 02: General view inside the stadium prior to the LaLiga EA Sports match between Real Madrid CF and Getafe CF at Estadio Santiago Bernabeu on September 02, 2023 in Madrid, Spain. (Photo by Angel Martinez/Getty Images)

Þar mun opnunarleikurinn fara fram og stefnt er að áhorfendameti, með 80.000 manns á vellinum, sem yrði fjölmennasti innanhús körfuboltaleikur allra tíma.

Ísland verður meðal þátttökuþjóða í undankeppni mótsins, sem hefst í febrúar 2028 og lýkur í febrúar 2029. Framundan hjá strákunum okkar er EuroBasket 2025 í sumar. Riðill Íslands verður leikinn í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×