Handbolti

Óbæri­leg spenna á toppi deildarinnar eftir stór­leiki Ís­lendinganna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir var magnaður í kvöld.
Gísli Þorgeir var magnaður í kvöld. Andreas Gora/Getty Images

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon spiluðu báðir stóra rullu þegar þýska stórliðið Magdeburg vann mikilvægan sigur í baráttunni um þýska meistaratitilinn í handknattleik. Þeir voru langt í frá einu Íslendingarnir sem létu að sér kveða í kvöld.

Gísli Þorgeir var markahæstur í sex marka sigri Magdeburgar á Burgdorf en liðin hófu leik í 4. og 5. sæti deildarinnar. Gísli Þorgeir skoraði hvorki meira né minna en átta mörk ásamt því að gefa tvær stoðsendingar. 

Fyrir leik greindi Magdeburg frá því að Ómar Ingi hefði framlengt samning sinn við félagið til ársins 2028. Hann hélt upp á það með því að koma með beinum hætti að tíu mörkum, skoraði sjö og lagði upp þrjú.

Melsungen vann sex marka sigur á Wetzlar, 33-27. Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson átti einnig góðan leik og skoraði fjögur mörk.

Leipzig mátti þola fjögurra marka tap gegn HSV, lokatölur 25-29. Andri Már Rúnarsson var markahæstur í liði heimamanna með sex mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar. Rúnar Sigtryggsson er sem fyrr þjálfari liðsins.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað þegar Göppingen beið afhroð gegn Füchse Berlín á heimavelli, lokatölur 28-43.

Staðan í deildinni er þannig að Melsungen er jafnt Füchse Berlín að stigum á toppi deildarinnar. Bæði lið með 50 stig að loknum 30 leikjum. Magdeburg er í 3. sæti með 45 stig en á tvo leiki til góða. Leipzig er í 12. sæti með 21 stig á meðan Göppingen er sæti neðar með stigi minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×