Enski boltinn

Awoniyi vaknaður eftir lífs­hættu­legar en vel heppnaðar að­gerðir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Taiwo Awoniyi varð fyrir alvarlegum meiðslum síðasta sunnudag og þurfti að gangast undir tvær aðgerðir. 
Taiwo Awoniyi varð fyrir alvarlegum meiðslum síðasta sunnudag og þurfti að gangast undir tvær aðgerðir.  Marc Atkins/Getty Images

Taiwo Awoniyi, framherji Nottingham Forest, var vakinn úr svefni eftir að hafa gengist undir aðra skurðaðgerð í gær og er sagður á batavegi í faðmi fjölskyldunnar.

Awoniyi varð fyrir alvarlegum meiðslum í leik gegn Leicester síðasta sunnudag, breska ríkisútvarpið greinir frá því að þarmar hans hafi rifnað, eftir harðan árekstur við markstöngina.

Facundo Buonanotte og Taiwo Awoniyi skullu saman og sá síðarnefndi vafðist utan um stöngina. Jacob King/PA Images via Getty Images

Awoniyi var strax fluttur á sjúkrahús og gekkst undir neyðaraðgerð á mánudag, honum var síðan haldið sofandi fram yfir seinni aðgerðina í gær, miðvikudag. Aðgerðirnar eru sagðar hafa gengið vel, Awoniyi var vakinn og fékk að hitta fjölskyldu en eyddi nóttinni undir eftirliti á sjúkrahúsi.

Lífshættuleg meiðsli

Awoniyi er ekki í lífshættu en meiðslin sem hann varð fyrir og aðgerðin sem hann gekkst undir, þegar þarmarnir rifnuðu, eru sögð lífshættuleg.

„Þetta eru mjög alvarleg meiðsli og geta verið lífshættuleg“ sagði ristil- og þarmaskurðlæknirinn Gillian Tierney í samtali við breska ríkisútvarpið.

Hann sagði um 9 prósent líkur á andláti þegar gengist er undir slíka aðgerð á þörmunum, en tók fram að Awoniyi væri íþróttamaður í toppformi, ekki maður á háum aldri með fleiri kvilla undirliggjandi, og lífslíkur hans því töluvert betri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×