Sport

Djokovic og Murray hættir að vinna saman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úti er ævintýri hjá Andy Murray og Novak Djokovic.
Úti er ævintýri hjá Andy Murray og Novak Djokovic. getty/Leonardo Fernandez

Novak Djokovic og Andy Murray hafa slitið samstarfi sínu. Murray var ráðinn þjálfari Djokovic í nóvember á síðasta ári.

Ákvörðunin er sögð hafa verið sameiginleg. Murray mun því ekki þjálfa Djokovic fyrir Wimbledon-mótið í júlí þar sem hann stefnir á að vinna keppni í einliðaleik í áttunda sinn.

„Takk Andy þjálfari fyrir alla vinnuna, skemmtunina og stuðninginn síðustu sex mánuðina, innan vallar sem utan. Ég naut þess að rækta vináttu okkar,“ sagði Djokovic.

Murray þakkaði Serbanum sigursæla fyrir tækifærið að þjálfa hann.

„Ég þakka Novak fyrir hið ótrúlega tækifæri að vinna saman og þakka teyminu hans fyrir allan dugnaðinn síðustu sex mánuðina. Ég óska Novak alls hins besta það sem eftir lifir tímabils,“ sagði Bretinn sem vann þrjá risatitla á ferlinum. Djokovic hefur aftur á móti unnið 24 risatitla.

Djokovic og Murray unnu aðeins saman á fjórum mótum, meðal annars Opna ástralska þar sem Serbinn komst í undanúrslit. Djokovic komst einnig í úrslit á Miami Open þar sem hann laut í lægra haldi fyrir hinum nítján ára Jakub Mensik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×