Íslenski boltinn

Þróttur skoraði sex og flaug á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Röðuðu inn mörkum.
Röðuðu inn mörkum. Vísir/Diego

Þróttur Reykjavík fór létt með nágranna sína úr Víkinni þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta. Lokatölur 6-2 Þrótti í vil og góð byrjun liðsins á tímabilinu heldur áfram.

Heimakonur byrjuðu af gríðarlegum krafti og kom Þórdís Elva Ágústsdóttir þeim yfir strax á 6. mínútu. Sú átti eftir að láta að sér kveða. Þórdís Elva bætti við öðru marki sínu á 23. mínútu og fullkomnaði þrennuna á 35. mínútu, staðan 3-0 í hálfleik.

Ef Víkingar gerðu sér vonir um endurkomu eftir hálfleiksræðuna þá var slökkt á þeirri von í upphafi síðari hálfleiks þegar Brynja Rán Knudsen skoraði fjórða mark Þróttar. Bergdís Sveinsdóttir klóraði í bakkann áður en Unnur Dóra Bergsdóttir bætti við fimmta marki Þróttar.

Dagný Rún Pétursdóttir minnkaði muninn í 5-2 og Sigríður Theód. Guðmundsdóttir bætti við sjötta marki heimaliðsins þegar enn voru 25 mínútur til leiksloka. Fleiri urðu mörkin þó ekki og lokatölur í Laugardal 6-2 Þrótti í vil sem er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×