Upp­gjörið: Bosnía-Ísland 25-34 | Topp­sætið tryggt hjá strákunum okkar

Kári Mímisson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson glaðbeittir.
Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson glaðbeittir. vísir/Anton

Ísland lagði Bosníu ytra í undankeppni EM 2026 nú í kvöld. Svo fór að lokum að Ísland vann afar sannfærandi níu marka sigur. Lokatölur 34-25 fyrir Ísland. Íslenska liðið tryggði sig á EM í fjórum leikjum en hefur nú unnið alla fimm leiki sína í undankeppninni.

Það verður seint sagt að þessi leikur hafi verið spennandi og íslenska liðið gaf strax tóninn með því að skora fyrstu fjögur mörk leiksins. Eftir það var það í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Hægt og rólega jókst forysta Íslands gegn slöku liði Bosníu en maður fékk það á tilfinninguna að íslenska liðið væri í í þriðja gírnum nær allan leikinn. Staðan í hálfleik 18-13 fyrir Ísland. 

Strákarnir okkar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og náðu mest tíu marka forystu. Snorri Steinn náði að rúlla ágætlega á hópnum en því miður verður að segjast að þeir leikmenn sem komu inn um miðjan seinni hálfleikinn hafi ekki náð að standa undir væntingum og þegar um skammt var til leiksloka tók Snorri leikhlé þar sem hann las heldur betur yfir sínum mönnum og tjáði þeim að hann hefði nákvæmlega enga þolinmæði fyrir því hvernig liðið var að leika þessa stundina. 

Þessi ræða vakti leikmenn liðsins greinilega til umhugsunar og minnti þá á að þeir væru nú að leika fyrir hönd þjóðarinnar en liðinu tókst að klára leikinn á góðu nótunum lokatölur eins og áður segir 34-25 fyrir Ísland sem tryggði sér í leiðinni efsta sæti riðilsins.

Ísland leikur næst á sunnudaginn kemur í Laugardalshöllinni gegn Georgíu en það er lokaleikur riðilsins.

Atvik leiksins

Þetta var ekki beint viðburðamikill leikur og fátt sem kemur í hugan sem atvik leiksins annað en bara það að íslenska mætti ágætlega til leiks og kláraði þetta frekar snemma. Lokamark Íslands í leiknum var líka ágætlega skrautlegt en Elvar Örn Jónsson fór held ég í tvo hringi áður en hann náði að setja boltann í netið.

Stjörnur og skúrkar

Elvar Örn Jónsson var frábær í leiknum. Hann var flottur í varnarlega í fyrri hálfleik og spilaði svo í sókninni líka í seinni hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk úr jafn mörgum skotum. Bjarki Már Elísson skoraði sömuleiðis sjö mörk en úr átta skotum og þá var Ómar Ingi Magnússon með sex mörk úr sjö skotum. Ef ég á að velja skúrk þá verð ég að setja það á Hauk Þrastarson sem kom inn seint í seinni hálfleik og tók fjögur skot sem öll fóru forgörðum.

Dómararnir

Mér persónulega þótti þeir flauta stundum full snemma. Það voru nokkur atvik þar sem sóknarliðið gat alveg haldið áfram en þeir ákveða að flauta í staðinn. Annað en það þá var þetta ekki flókinn handboltaleikur að dæma og þeir félagarnir frá Lettlandi gerðu þetta bara ágætlega.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira