Handbolti

„Þessi veg­ferð hefur verið draumi líkust“

Aron Guðmundsson skrifar
Sólveig á hliðarlínunni sem þjálfari ÍR þar sem að hún hefur unnið afar gott starf undanfarin þrjú ár.
Sólveig á hliðarlínunni sem þjálfari ÍR þar sem að hún hefur unnið afar gott starf undanfarin þrjú ár. Vísir

„Ég mun aldrei sjá eftir þessari ákvörðun," segir Sól­veig Lára Kjær­nested sem hefur, eftir stöðug fram­fara­skref síðustu þrjú ár með kvenna­lið ÍR í hand­bolta, sagt starfi sínu lausu. Óvíst er hvort fram­hald verði á þjálfara­ferli hennar.

Sól­veig tók við þjálfun ÍR árið 2022 og var það hennar fyrsta starf í þjálfun eftir farsælan feril sem leik­maður lengst af með Stjörnunni og ís­lenska lands­liðinu. Af hverju er komið að leiðar­lokum hjá henni og ÍR?

„Það er bara komið að ákveðnum tíma­punkti í mínu lífi. Þetta er tíma- og orku­frekt, þrátt fyrir að þetta sé ótrú­lega skemmti­legt þá krefst þetta mikils af manni. Ég held ég sé að skilja við liðið á góðum stað og að þetta sé rétti tíma­punkturinn,“ segir Sól­veig í sam­tali við íþrótta­deild.

Undir stjórn Sól­veigar Láru síðustu þrjú ár hefur ÍR tekið hvert fram­fara­skrefið á fætur öðru. Farið upp í úr­vals­deild, komist í undanúr­slit í bikar og núna í undanúr­slit efstu deildar sem er besti árangur kvenna­liðs ÍR í hand­bolta til þessa.

Árangurinn ekki síður ánægju­legur með það fyrir augum að ekki eru mörg ár síðan að uppi var um­ræða um að leggja niður liðið en sem betur fer varð ekkert af því.

„Þessi veg­ferð hefur verið draumi líkust. Við erum búnar að taka hvert skrefið á fætur öðru. Ég tek við liðinu í næ­stefstu deild og þar er okkur spáð fjórða sæti. Við förum hins vegar upp í efstu deild í gegnum um­spil eftir frábæra rimmu við Sel­foss sem var ákveðinn lykil­punktur fyrir félagið og þetta lið. Við náum svo góðu tíma­bili í fyrra og komum inn með aðeins meiri pressu á okkur á nýaf­stöðnu tíma­bili. Það er erfitt að koma ekki á óvart og fara í gegnum annað árið í efstu deild en stelpurnar stóðu sig gríðar­lega vel og eru mjög nálægt því að festa sig virki­lega í sessi í þessari deild sem er frábær árangur.“

Sól­veig sem er alinn upp hjá ÍR en spilaði lengst af með liði Stjörnunnar sem og ís­lenska lands­liðinu, ætlaði sér ekki að fara í þjálfun á sínum tíma en sér ekki eftir að hafa tekið skrefið þangað í dag.

„Ég mun aldrei sjá eftir þessari ákvörðun, að hafa tekið skrefið. Þetta kom alveg á óvart á sínum tíma. Hugurinn leitaði ekkert þangað. Kannski er maður alltaf að gera lítið úr sjálfum sér og hafði kannski ekki beint trú á að þetta væri eitt­hvað sem ég gæti gert. En það var mann­skapur hérna hjá félaginu sem barði í mig trú og var viss um að ég gæti þetta. Ég er þeim aðilum ótrú­lega þakk­lát. Ég er svo þakk­lát fyrir þessi þrjú ár, fólkið sem ég hef búin að fá að kynnast hérna og vináttuna sem hefur myndast. Ég gæti ekki verið sáttari.“

Brott­hvarf Sól­veigar á ekki að þýða endastöð góðs árangurs fyrir vel mannað lið ÍR

„Ég veit að þeim á eftir að vegna vel. Þessi hópur og þetta lið er frábært. Sam­heldnin í þessu liði er einstök og ég veit það með nokkurri vissu núna að þeim muni vegna vel. Hver sem tekur við mínu starfi er með frábært lið í höndunum. Það er mjög dýr­mætt fyrir mig að geta komið inn í þetta og skilið núna við liðið á þessum stað.“

Óvíst er hvað tekur við á þjálfara­ferli Sól­veigar eða hvort hann yfir höfuð haldi áfram.

„Eins og þetta horfir við mér í dag er ég að fara kúpla mig aðeins út. Hlúa aðeins að sjálfri mér og fjöl­skyldunni, þeim verk­efnum sem við erum að fást við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×