Skoðun

Hug­rekki getur af sér hug­rekki

Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Ég minnist þess þegar við lásum fréttir af því að Ísraelsher hefði varpað eldflaug á fyrsta spítalann, þegar hin sex ára Hind hringdi í neyðarlínuna umkringd látnum fjölskyldumeðlimum rétt áður en hún var myrt sjálf, þegar höfuðlausu smábarni var lyft upp af harmi slegnum föður eftir sprengjuárás á flóttamannabúðir. Manst þú hvernig þér leið þá?

Í gær ákvað Ísraelsstjórn svo að hefja skuli allsherjarinnrás á Gaza, þar sem tvær milljónir manna svelta nú við vonlausar aðstæður, með það fyrir augum að hertaka svæðið. Fleira saklaust fólk mun deyja, fleiri lítil börn verða sprengd í sundur. Hvernig líður þér núna?

Ég veit að ég hef með tímanum - gegn betri vitund - misst næmnina fyrir sársauka fólksins á Gaza og þeirri grimmd sem þeim er sýnd á degi hverjum. En það er nákvæmlega svoleiðis sem afmennskun virkar, nákvæmlega svona sem síendurtekið og linnulaust ofbeldi virkar. Ísraelsstjórn hefur fært mörkin millimeter eftir millimeter undanfarið eitt og hálft ár - og nú á að reka smiðshöggið á þjóðarmorðið sem framið er fyrir augunum á okkur öllum.

Alþjóðalög hafa aftur og aftur verið virt að vettugi, en alþjóðastofnanir standa með hendur bundnar því stórar þjóðir á borð við Bandaríkin og Þýskaland koma í veg fyrir að Ísraelar séu gerðir ábyrgir gjörða sinna. Á meðan býr þjóð sem er að miklum hluta börn við hryllilegustu aðstæður sem hægt er að ímynda sér, og bíður nú innrásar eins fullkomnasta hers í heimi.

Það þarf varla að taka fram að fordæmið sem atburðarás undanfarinna missera setur er skelfilegt fyrir smáþjóð eins og Ísland. Hinir sterku valta yfir allt og alla og afleiðingarnar eru engar, því hagsmunirnir eru of ríkir.

Hvernig viljum við að framtíðarkynslóðir minnist okkar, í alvöru? Við eigum að ganga eins langt og við mögulega getum til þess að reyna að stöðva þennan hrylling. Ísland er smáþjóð, en hugrekki getur af sér hugrekki. Það var skylda Íslands fyrir ári síðan að grípa til alvöru aðgerða. Það er ófrávíkjanleg skylda okkar núna.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×