Körfubolti

„Ég hef hluti að gera hér“

Smári Jökull Jónsson skrifar
DeAndre Kane var besti maður vallarins í kvöld.
DeAndre Kane var besti maður vallarins í kvöld. Vísir/Guðmundur

DeAndre Kane átti stórkostlegan leik fyrir Grindavík sem vann ótrúlegan sigur á Stjörnunni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildarinnar. Oddaleikur liðanna fer fram á mánudag.

„Þetta var ákefð og vilji. Við vildum ekki fara heim. Fimmtán stigum undir og koma til baka á þennan hátt, liðið sýndi þrautsegju, vinnusemi, hugrekki og samstöðu. Það er það sem þarf til að vinna leiki,“ sagði Kane í viðtali við Andra Má Eggertsson á Stöð 2 Sport eftir leik.

Kane var frábær í leiknum og skoraði mikilvæg stig á lokasekúndunum. Hann lauk leik með 33 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Hann sagðist ekki vera tilbúinn að fara heim.

„Alls ekki, ég sakna barnanna minna en ég þarf að vera í burtu aðeins lengur. Ég hef hluti að gera hér, klára verkefnið sem ég byrjaði á og ná aðaltakmarkinu sem er að vinna meistaratitil. Við erum komnir einum leik nær markmiðinu.“

Á milli þriðja og fjórða leikhluta braut Kane þjálfaraspjald Jóhanns Þórs þjálfara Grindavíkur. Andri Már spurði hann hvort þetta hefði hvatt leikmennina áfram.

„Ég held það, það hefði ekkert að gera með leikmennina. Ég var meira pirraður út í sjálfan mig. Strákarnir vita hvernig ég er og eru sáttir með mig og fagna mér. Við náðum að klára þetta.“

Stemmningin í Smáranum í kvöld var frábær. Hún var Stjörnumegin nær allan leikinn en undir lokin biluðust stuðningsmenn Grindavíkur.

„Andrúmsloftið er stórkostlegt, Grindavík er með bestu stuðningsmenn í heimi. Ég gæti ekki verið ánægðari að spila fyrir þetta félag,“ sagði Kane að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×