Tónlist

Davíð í Kaleo bjó til flöskutrommusett

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Líklega eru fáir trommarar eins hugmyndaríkir og Davíð í Kaleo.
Líklega eru fáir trommarar eins hugmyndaríkir og Davíð í Kaleo.

Davíð Antonsson Crivello sem oftast er kenndur við Kaleo fór nýstárlega leið þegar honum var fengið það verkefni að búa til lag í tengslum við auglýsingu á vegum Ölgerðarinnar. Hann nýtti flöskur, dósir, bjórkassa og tappa til þess að búa til hin ýmsu hljóð sem hann púslaði svo saman í lag.

Strákarnir í Kaleo hafa fyrir löngu stimplað sig inn sem ein stærsta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér. Mikið er framundan hjá sveitinni sem túrar nú um Ameríku en Davíð gaf sér tíma til þess að leggja Ölgerðinni lið við gerð lags fyrir auglýsingu um Gull.

„Þetta var svolítið skemmtilegt verkefni að því leyti að við ákváðum að vinna mestmegnis með dósa- og flöskuhljóð,“ segir Davíð í myndbandi um gerð lagsins en óhætt er að segja að hann hafi ekki farið hefðbundna leið við að búa það til.

„Við byrjuðum aðeins að tromma og svo fórum við að því að gera eins mörg hljóð og okkur datt í hug úr flöskum, bjórkössum, dósum með því að berja í þetta, blása í þetta....hérna erum við að kremja dós. Svo settum við þetta saman og bjuggum til flöskutrommusett.“

Davíð notaði meðal annars tappa sem hann lamdi einfaldlega saman og þá var snerill trommusettsins samblanda af hinum ýmsu hljóðum og bassatromman sömuleiðis gerð með aðstoð bjórkassa og opnunum á bjórflöskum.

„Eftir það fórum við svo í flösku-improv eins og við köllum það. Við röðuðum bara fullt af dósum og flöskum og svo spilaði ég á þær með trommukjuðum og við blöndum fjórum þannig saman. Ofan á þetta gerðum við hristu, hljómar bara mjög vel og það er ekkert búið að eiga við hana, hún hljómaði bara mjög vel. Svona blönduðum við þessu saman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.