Von er á fyrstu slátrun á laxi hjá Thor landeldi um haustið 2027. Um er að ræða annan áfanga af fjórum, en félagið áformar uppbyggingu á 20.000 tonna landeldi á laxi. Fyrsta áfanga verkefnisins lýkur nú fyrir sumarið en hann er bygging á fullkominni seiðastöð, ásamt undirbúningsvinnu í rannsóknum og leyfismálum fyrir verkefnið sem öll eru höfn.
„Það er mjög ánægjulegt að geta hafið framkvæmdir í byrjun sumars á fullfjármögnuðu áframeldi á laxi á sama tíma og seiðaeldisstöð félagsins hefur rekstur. Fagmennska við uppbyggingu seiðaeldisins og öflug samvinna sjóðsins og stofnenda hefur varðað veginn fyrir næstu áfanga Thor landeldis,“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga, tíu milljarða framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða.
Sjóðurinn IS Haf, sem kemur með um helminginn af því fjármagni sem Thor er að sækja sér í þessari fjögurra milljarða hlutafjáraukningu, kom fyrst að landeldisfyrirtækinu þegar hann fjárfesti í því á seinni helmingi ársins 2023.
Aðrir fjárfestar sem leiddu hlutafjáraukninguna hjá Thor Landeldi eru Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar, aðaleigenda og forstjóra Brims, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrisþjónusta Íslandsbanka og Almenni lífeyrissjóðurinn. Þeir fjárfestar eru allir jafnframt hluthafar í sjóðnum IS Haf en ÚR og Birta eru hvor um sig með tuttugu prósenta hlut.
Það var fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance sem hafði umsjón með hlutafjárútboðinu.
Útgerðarfélag Reykjavíkur greindi frá því í flöggun til Kauphallarinnar eftir lokun markaða í gær að það hefði skráð fyrir sig um 900 milljónum í hlutafjáraukningu Thors Landeldis. Áætlað er að ÚR muni eftir hana eiga beinan og óbeinan eignarhlut – sem er þá í gegnum IS Haf – í Thor Landeldi sem nemur samtals um 24,4 prósentum.
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR og fer fyrir fjárfestingaráði IS Haf, segir að útgerðarfélagið sjái Thor Landeldi sem tækifæri til að styðja við sjálfbæra og hátæknivædda matvælaframleiðslu á Íslandi. „Fjárfesting í landeldi er mikilvægt framlag til byggðar, atvinnulífs og vistvænnar framtíðar. Þróun landeldis er eitt af þeim sviðum þar sem Ísland getur orðið leiðandi á heimsvísu – og við viljum vera hluti af þeirri vegferð.“
Það er mjög ánægjulegt að geta hafið framkvæmdir í byrjun sumars á fullfjármögnuðu áframeldi á laxi á sama tíma og seiðaeldisstöð félagsins hefur rekstur.
Forsvarsmenn Thor landeldis eru þeir Jónatan Þórðarson, Þórður Þórðarson og Halldór Ragnar Gíslason, en auk þeirra starfa Vignir Stefánsson og Sigurður Örn Jakobsson hjá félaginu, sem allir hafa mikla reynslu á ýmsum sviðum fiskeldis. Stjórn félagsins skipa Jónas Engilbertsson, Alex Vassbotten, Birna Einarsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka, Carl-Erik Arnesen og Hermann Kristjánsson.
Jónatan er fiskeldisfræðingur með yfir 20 ára reynslu af rekstri og uppbyggingu fiskeldisstöðva og var yfirmaður eldismála hjá Ice Fish Farm árin 2012 til 2022. Þórður starfaði áður meðal annars sem lögmaður og framkvæmdastjóri hjá Fiskeldi Austfjarða 2012 til 2023 en þeir Jónatan voru í hópi stofnenda Fiskeldis Austfjarða. Halldór er sjávarútvegsfræðingur með meistaragráðu í fiskeldi frá Skotlandi og starfaði síðast í sjávarútvegsteymi á fyrirtækjasviði Arion banka.
Halldór Ragnar, sem er framkvæmdastjóri Thor Landeldis, segir í tilefni hlutafjáraukningarinnar að stofnendur félagsins séu „eðlilega í skýjunum“ með þann stuðning sem því er sýndur með aðkomu þessara reynslumiklu fjárfesta. „Við höfum átt afar gott samstarf við IS Haf í núverandi uppbyggingu sem hefur gengið vel og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar með þessum öfluga hluthafahópi.“
Innherji greindi fyrst frá stofnun IS Haf í marsmánuði 2023 en í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta sjóðsins verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Fjárfestingum hans verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Sjóðurinn mun fjárfesta að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland.
Til viðbótar við ÚR, Birtu og Almenna eru aðrir helstu hluthafar framtakssjóðsins meðal annars LSR, Frjálsi og sjávarútvegsfyrirtækið Brim. Sjóðurinn hefur jafnframt lokið við fjárfestingar í fyrirtækjunum Kapp, Regenics AS og NP Innovation, eins og Innherji hefur áður fjallað um.