Á hliðarlínu heimsins Ólafur Þ. Stephensen skrifar 3. apríl 2014 07:00 Það er áhugavert hvað ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um tækifæri Íslendinga sem liggja í hlýnun loftslags á hnettinum hafa vakið hörð viðbrögð. Í fyrsta lagi var ráðherrann ekki að segja neitt nýtt. Hann var að ítreka það sem hann hefur sagt áður, til dæmis í stefnuræðu sinni á þingi í fyrrasumar og í setningarræðu flokksþings Framsóknarflokksins í fyrravor. Hann er augljóslega uppteknari af þeim tækifærum sem liggja í hnattrænni hlýnun fyrir íslenzka hagsmuni en af hinum skelfilegu afleiðingum fyrir til dæmis íbúa þróunarríkjanna, sem lýst er í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hann sér fremur kornakrana bylgjast í íslenzkum sveitum en flóð og uppskerubrest í einhverju Langtburtistan. Í öðru lagi tjáði forsætisráðherrann viðhorf sem er áreiðanlega ríkjandi hjá drjúgum hluta þjóðarinnar. Íslendingar hafa löngum haft meiri áhuga á því hvernig megi græða á hnattrænum vandamálum eða krísum en hvernig megi koma í veg fyrir þær. Tvær heimsstyrjaldir og kalda stríðið – við græddum á því öllu saman! Hvað er vandamálið? Í þriðja lagi falla skoðanir ráðherrans mjög að viðhorfum forseta Íslands undanfarin ár. Hann hefur að sönnu verið prýðilega meðvitaður um hugsanlegar skelfilegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, en rétt eins og forsætisráðherrann miklu áhugasamari um hvað Íslendingar geti grætt á þróuninni en að við þurfum hugsanlega að breyta okkar ósjálfbæru lífsháttum til að taka þátt í að fyrirbyggja vandamálið. Í fjórða lagi er þessi málflutningur í prýðilegu samræmi við sýn forsætisráðherrans (og forsetans) á stöðu Íslands í samfélagi þjóða; við deilum ekki ákvörðunarvaldi með neinum og því síður deilum við örlögum okkar með umheiminum. Ef það gengur vel hjá öðrum ríkjum, þá hengjum við okkur utan á það og græðum á því. Ef það gengur illa, þá finnum við líka út hvernig við græðum á því. Þetta getur ekki klikkað. Vandinn við að vera svona upptekin af hinum stórkostlegu tækifærum sem liggja í loftslagsbreytingunum, eins og að verða siglingamiðstöð og flytja út kjöt, smér og hitaveituverkfræðinga, er kannski tvenns konar. Annars vegar hvetur þessi orðræða okkar helztu leiðtoga ekki beint til þess að við veltum fyrir okkur hvort þróunin feli í sér hættur fyrir Ísland, rétt eins og lönd sunnar á hnettinum. Við vitum til dæmis ósköp lítið um áhrifin á hafið og fiskstofna okkar. Það er ekkert víst að fleiri stofnar taki upp á því sama og makríllinn, að synda inn í efnahagslögsöguna. Sumir gætu tekið upp á því að synda burt eða drepast. Og hvað þýðir það ef jöklarnir okkar bráðna og gróðurfarið breytist? Það eru hættur þarna, ekki síður en tækifæri. Hins vegar gerir þessi málflutningur mjög lítið fyrir vitund okkar um að hlýnun loftslags er hnattrænn vandi, sem getur valdið stórum heimshlutum gífurlegum búsifjum. Við berum ábyrgð á því eins og allar aðrar þjóðir að reyna að hindra þá þróun – og setja þá ekki alltaf þrönga eiginhagsmuni í fyrsta sæti. Á endanum er þetta nefnilega bara ein Jörð – það er ekki hægt að sitja á hliðarlínunni og grípa bara góðu bitana. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Villtur lax eða villt græðgi – sveitin í skotlínu Jóhann Helgi Stefánsson Skoðun Aðför ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að flóttafólki Hópur stjórnarkvenna í Solaris Skoðun Hanna Katrín og Co, koma til bjargar Björn Ólafsson Skoðun Fyrst flúðu þau Reykjavíkurborg… Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Reykjavíkurborg á flestar félagslegar íbúðir en Garðabær rekur lestina Heimir Már Pétursson Skoðun Sigrar og raunir íslenska hestsins Elín Íris Fanndal Skoðun Vladímír Pútín: Hvað er að marka hann? Steinar Björgvinsson Skoðun Konur og menntun Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir Skoðun Þegar innflutningurinn ræður ríkjum Anton Guðmundsson Skoðun Góðir grannar Landsvirkjunar og við hin Kjartan Ágústsson Skoðun
Það er áhugavert hvað ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um tækifæri Íslendinga sem liggja í hlýnun loftslags á hnettinum hafa vakið hörð viðbrögð. Í fyrsta lagi var ráðherrann ekki að segja neitt nýtt. Hann var að ítreka það sem hann hefur sagt áður, til dæmis í stefnuræðu sinni á þingi í fyrrasumar og í setningarræðu flokksþings Framsóknarflokksins í fyrravor. Hann er augljóslega uppteknari af þeim tækifærum sem liggja í hnattrænni hlýnun fyrir íslenzka hagsmuni en af hinum skelfilegu afleiðingum fyrir til dæmis íbúa þróunarríkjanna, sem lýst er í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hann sér fremur kornakrana bylgjast í íslenzkum sveitum en flóð og uppskerubrest í einhverju Langtburtistan. Í öðru lagi tjáði forsætisráðherrann viðhorf sem er áreiðanlega ríkjandi hjá drjúgum hluta þjóðarinnar. Íslendingar hafa löngum haft meiri áhuga á því hvernig megi græða á hnattrænum vandamálum eða krísum en hvernig megi koma í veg fyrir þær. Tvær heimsstyrjaldir og kalda stríðið – við græddum á því öllu saman! Hvað er vandamálið? Í þriðja lagi falla skoðanir ráðherrans mjög að viðhorfum forseta Íslands undanfarin ár. Hann hefur að sönnu verið prýðilega meðvitaður um hugsanlegar skelfilegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, en rétt eins og forsætisráðherrann miklu áhugasamari um hvað Íslendingar geti grætt á þróuninni en að við þurfum hugsanlega að breyta okkar ósjálfbæru lífsháttum til að taka þátt í að fyrirbyggja vandamálið. Í fjórða lagi er þessi málflutningur í prýðilegu samræmi við sýn forsætisráðherrans (og forsetans) á stöðu Íslands í samfélagi þjóða; við deilum ekki ákvörðunarvaldi með neinum og því síður deilum við örlögum okkar með umheiminum. Ef það gengur vel hjá öðrum ríkjum, þá hengjum við okkur utan á það og græðum á því. Ef það gengur illa, þá finnum við líka út hvernig við græðum á því. Þetta getur ekki klikkað. Vandinn við að vera svona upptekin af hinum stórkostlegu tækifærum sem liggja í loftslagsbreytingunum, eins og að verða siglingamiðstöð og flytja út kjöt, smér og hitaveituverkfræðinga, er kannski tvenns konar. Annars vegar hvetur þessi orðræða okkar helztu leiðtoga ekki beint til þess að við veltum fyrir okkur hvort þróunin feli í sér hættur fyrir Ísland, rétt eins og lönd sunnar á hnettinum. Við vitum til dæmis ósköp lítið um áhrifin á hafið og fiskstofna okkar. Það er ekkert víst að fleiri stofnar taki upp á því sama og makríllinn, að synda inn í efnahagslögsöguna. Sumir gætu tekið upp á því að synda burt eða drepast. Og hvað þýðir það ef jöklarnir okkar bráðna og gróðurfarið breytist? Það eru hættur þarna, ekki síður en tækifæri. Hins vegar gerir þessi málflutningur mjög lítið fyrir vitund okkar um að hlýnun loftslags er hnattrænn vandi, sem getur valdið stórum heimshlutum gífurlegum búsifjum. Við berum ábyrgð á því eins og allar aðrar þjóðir að reyna að hindra þá þróun – og setja þá ekki alltaf þrönga eiginhagsmuni í fyrsta sæti. Á endanum er þetta nefnilega bara ein Jörð – það er ekki hægt að sitja á hliðarlínunni og grípa bara góðu bitana.
Aðför ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að flóttafólki Hópur stjórnarkvenna í Solaris Skoðun
Reykjavíkurborg á flestar félagslegar íbúðir en Garðabær rekur lestina Heimir Már Pétursson Skoðun
Aðför ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að flóttafólki Hópur stjórnarkvenna í Solaris Skoðun
Reykjavíkurborg á flestar félagslegar íbúðir en Garðabær rekur lestina Heimir Már Pétursson Skoðun