Fótbolti

Bayern tapaði deildar­leik í fyrsta sinn á tíma­bilinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bayern Munchen er alls ekki vant því að tapa, hvað þá á heimavelli.
Bayern Munchen er alls ekki vant því að tapa, hvað þá á heimavelli. Sebastian Widmann/Getty Images

Bayern Munchen tapaði deildarleik í fyrsta sinn á tímabilinu þegar Augsburg sótti 1-2 sigur á Allianz leikvanginum í 19. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Leikurinn byrjaði vel fyrir Bayern og Hiroki Ito kom heimamönnum yfir um miðjan fyrri hálfleik, eftir stoðsendingu Michael Olise.

Augsburg tókst síðan mjög óvænt að snúa leiknum við í seinni hálfleik. Arthur Chaves og Han-Noah Massengo skoruðu mörk með stuttu millibili, á 75. og 81. mínútu.

Gestunum tókst síðan að halda út og fögnuðu sigri þökk sé góðum varnarleik þegar Bæjarar sóttu stíft undir lokin.

Þetta var fyrsta tap Bayern Munchen í þýsku deildinni á þessu tímabili og það fyrsta síðan 8. mars á síðasta ári. 

Sextán sigrar og tvö jafntefli skiluðu sér í fyrstu átján umferðunum í deildinni og á öllu tímabilinu hefur Bayern aðeins tapað einum leik, í Meistaradeildinni gegn Arsenal. 

Tapið var einkar óvænt því Augsburg situr í 13. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×