Fótbolti

Heimavinnan skilaði marki fyrir Szoboszlai

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dominik Szoboszlai skoraði skemmtilegt aukaspyrnumark í gærkvöldi. 
Dominik Szoboszlai skoraði skemmtilegt aukaspyrnumark í gærkvöldi.  Vísir/Getty

Dominik Szoboszlai renndi boltanum undir varnarvegg og skoraði mark beint úr aukaspyrnu fyrir Liverpool í 3-0 sigri gegn Marseille í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Hann segir þetta ekki hafa verið neina skyndiákvörðun.

„Ég var búinn að vinna heimavinnu. Mér var sagt að ég ætti séns á að skjóta undir vegginn ef það væri enginn liggjandi þarna hjá þeim. Ég ákvað að prófa það og það virkaði“ sagði Szoboszlai við TNT Sports eftir leik.

Þetta var annað aukaspyrnumarkið sem Szoboszlai skorar á tímabilinu og hann virðist vera orðinn aðalspyrnumaðurinn hjá Liverpool.

„Við [Mohamed Salah] tölum alltaf saman áður en spyrnurnar eru teknar, hvernig okkur líður í leiknum og hvernig okkur líst á færið. Kannski þekkir annar okkar andstæðinginn betur. En jú hann spurði bara hvort ég vildi taka spyrnuna og ég sagði honum að ég ætlaði að skjóta undir vegginn. Honum leist vel á það“ sagði Szoboszlai um markið, sem má sjá hér fyrir neðan. 

Klippa: Marseille - Liverpool 0-3

Szoboszlai hrósaði Salah síðan mikið undir lok viðtalsins en Egyptinn var að snúa aftur frá Afríkumótinu og spilaði níutíu mínútur í leiknum gegn Marseille eftir að hafa aðeins náð einni æfingu með liðinu.

„Ótrúlega gott að fá hann aftur. Hann hjálpar liðinu mikið, bæði innan og utan vallar. Og eins og þið vitið erum við mjög nánir. Það er frábært að spila með honum. Þó hann hafi ekki náð marki eða stoðsendingu í dag þá átti hann frábæran leik… Hann á markið bara inni í næsta leik“ sagði Szoboszlai um Salah, sem klúðraði dauðafæri í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×