Tíska og hönnun

Valentino er allur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Valentino lést á heimili sínu í Róm. 
Valentino lést á heimili sínu í Róm.  Getty

Tískumógúllinn Ludovico Clemente Garavani, best þekktur sem Valentino, er látinn 93 ára að aldri. 

Frá andláti Valentino er greint á Sky, en hann lést á heimili sínu í Róm fyrr í dag. Á miðvikudaginn fer fram kistulagning til heiðurs hönnuðinum á Mignanelli-torgi í Róm en hann verður borinn til grafar á föstudag. 

Valentino fæddist þann 11. maí 1932 í Voghera á Norður-Ítalíu. Hann vakti fyrst athygli í heimi tísku og hönnunar þegar hann lærði hátískusaum í París. Hann stofnaði sitt eigið fatamerki, Valentino, í Róm árið 1959. 

Árið 1960 kynntist hann Giancarlo Giammetti, nema í arkítektúr sem átti eftir að verða viðskiptafélagi hans til langs tíma. Saman gerðu þeir Valentino að heimsfrægu vörumerki en áttu þar að auki í ástarsambandi í tólf ár. 

Þekktasta hugverk hans er hinn svokallaði Valentino-rauði litur, sem einkenndi margar tískuvörur úr hans smiðju. 

Kjóla og flíkur Valentino mátti iðulega sjá á rauðum dreglum Hollywood frá því á seinni hluta síðustu aldar. Reese Witherspoon, Jennifer Lopez, Cate Blanchett, Elizabeth Taylor, Audrey Hepburn og Joan Collins eru meðal Hollywood-stjarna sem hafa skartað klæðnaði úr hans ranni í gegnum árin.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.