Enski boltinn

Fé­lags­færni og per­sónu­leiki skiptir miklu máli þegar Tuchel velur HM-hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel, landsliðsþjálfari Englands, fylgist ekki aðeins með frammistöðunni heldur einnig framkomunni hjá ensku leikmönnunum sem vilja komast á HM í sumar.
Thomas Tuchel, landsliðsþjálfari Englands, fylgist ekki aðeins með frammistöðunni heldur einnig framkomunni hjá ensku leikmönnunum sem vilja komast á HM í sumar. Getty/Robin Jones

Thomas Tuchel landsliðsþjálfari Englands segir að leikmenn þurfi að búa yfir réttri „félagsfærni“ og persónuleika til að komast í HM-hópinn sinn.

Tuchel á aðeins eftir tvo vináttuleiki í mars, gegn Úrúgvæ og Japan, áður en hann tilkynnir hópinn fyrir lokakeppnina, þar sem England mætir Króatíu, Gana og Panama í riðlakeppninni.

Fyrrverandi stjóri Chelsea hefur ekki hikað við að skilja stór nöfn eins og Jude Bellingham og Phil Foden eftir fyrir utan hópinn síðan hann tók við af Gareth Southgate og hann kallaði líka aftur inn hinn reynslumikla miðjumann Brentford, Jordan Henderson.

Ekki endilega bara bestu leikmennina

Tuchel segir að hann þurfi rétta jafnvægið í hópnum sínum en ekki endilega bara bestu leikmennina.

„Þegar ég tala við leikmenn sem hafa tekið þátt í heimsmeistaramótum hefur það alltaf skipt sköpum þegar tengingin var rétt, þegar samskiptin voru rétt,“ sagði Thomas Tuchel við BBC.

Þeir vissu hlutverk sitt

„Þegar leikmennirnir höfðu á tilfinningunni að rétti hópurinn væri kominn saman, að þeir vissu hlutverk sitt, hvers vegna þeir væru í hópnum, hvers væri vænst af þeim, og þeir höfðu á tilfinningunni að mótið gæti jafnvel haldið áfram í fjórar vikur í viðbót og að þeir væru ánægðir með að vera saman, þá náðu þeir árangri,“ sagði Tuchel.

„Það verður mjög mikilvægt að við veljum ekki bara út frá hæfileikum heldur líka út frá því hvað við þurfum frá leikmanni. Hver er félagsfærni leikmanns, er hann góður liðsfélagi? Getur hann stutt við bakið á öðrum ef hlutverk hans er kannski stuðningshlutverk? Þannig að það er þar sem áherslan liggur,“ sagði Tuchel.

England hefur komist í úrslitaleik síðustu tveggja Evrópumóta og komst í undanúrslit HM árið 2018 undir stjórn Southgate.

Mun krefjast mikils af þeim

Liðið mætir Króatíu í Arlington í Texas þann 17. júní, í upphafi móts sem gæti orðið langt.

„Við munum hafa marga leikmenn þarna úti sem vonandi spila fram í maí um alþjóðlega titla, þeir munu spila um innlenda titla og við munum krefjast – heimsmeistaramótið mun krefjast mikils af þeim,“ sagði Tuchel.

„Svo verðum við vonandi saman í sex til átta vikur ef við komumst alla leið. Þetta mun krefjast mikils af félagsfærni okkar, hvernig við erum saman sem hópur og við þurfum að velja rétt í hópinn,“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×