Enski boltinn

Carrick nú talinn lík­legastur til að taka við Man Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick leiðir goðsagnalið Manchester United út á völlinn fyrir góðgerðaleik árið 2024.
Michael Carrick leiðir goðsagnalið Manchester United út á völlinn fyrir góðgerðaleik árið 2024. Getty/Ash Donelon

Manchester United hefur enn ekki staðfest hver muni taka við liðinu en samkvæmt breska ríkisútvarpinu er Michael Carrick nú talinn líklegastur til að verða ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United til bráðabirgða. 

Þetta hefur blaðamaður BBC komist að samkvæmt heimildum frá fólki sem þekkir vel til ferlisins. Stjórnarmenn félagsins vonast til að ráðning verði klár þegar leikmenn snúa aftur til æfinga á miðvikudag.

Þótt endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin er sagt að viðræður við þennan 44 ára gamla mann um stöðuna séu langt komnar.

Carrick stýrði United áður í þremur leikjum sem bráðabirgðastjóri eftir að Ole Gunnar Solskjær var rekinn árið 2021.

Hann vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli en hætti eftir að Ralf Rangnick tók við sem bráðabirgðastjóri.

Solskjær fundaði á laugardag

Solskjær átti fund með stjórn félagsins á laugardag þar sem rætt var um endurkomu hans.

United rak Ruben Amorim sem knattspyrnustjóra þann 5. janúar eftir fjórtán mánuði í starfi.

Darren Fletcher, fyrrverandi miðjumaður United og skoska landsliðsins, fékk upphaflega tímabundna ábyrgð á aðalliðinu eftir brotthvarf Amorim.

United tapaði fyrir Brighton í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar á sunnudag í því sem líklegt er að verði annar og síðasti leikur Fletcher við stjórnvölinn. Hann stýrði liðinu til jafnteflis gegn Burnley, sem er í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni, síðastliðinn miðvikudag.

Spilaði 464 leiki fyrir United

Carrick, fyrrverandi miðjumaður enska landsliðsins, spilaði 464 leiki í öllum keppnum fyrir United á árunum 2006 til 2018, en hann var keyptur frá Tottenham af Sir Alex Ferguson.

Hann hefur verið án atvinnu síðan hann var rekinn frá B-deildarliðinu Middlesbrough í júní síðastliðnum eftir tveggja og hálfs árs starf.

Carrick kom Boro í umspil um sæti í úrvalsdeildinni tímabilið 2022–23, en liðið tapaði fyrir Coventry í undanúrslitum.

Lið hans missti svo naumlega af efstu sex sætunum tvö tímabil í röð, sem leiddi til þess að Carrick missti starfið.

Carrick, sem er fæddur í Wallsend, hefur ekki sömu stjórnunarreynslu og Solskjær, þar sem hann hefur aðeins gegnt einu föstu starfi hjá Middlesbrough.

Byrjaði í teymi Jose Mourinho

Eftir að hafa lagt skóna á hilluna eftir glæstan feril á Old Trafford gekk Carrick strax til liðs við þjálfarateymi Jose Mourinho hjá United í lok tímabilsins 2017–18.

Eftir að Portúgalanum var sagt upp störfum hélt hann áfram sem aðalliðsþjálfari á meðan Solskjær stýrði liðinu í 168 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×