Körfubolti

Fá nýjan Kana í harða bar­áttu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Luwane Pipkins var öflugur í háskólaboltanum vestanhafs og hefur síðan farið víða um Evrópu sem atvinnumaður.
Luwane Pipkins var öflugur í háskólaboltanum vestanhafs og hefur síðan farið víða um Evrópu sem atvinnumaður. Mitchell Leff/Getty Images

Njarðvíkingar hafa fundið nýjan Bandaríkjamann í liðið fyrir komandi átök í Bónus deild karla í körfubolta. Sá heitir Luwane Pipkins og kemur úr gríska boltanum.

Njarðvíkingar létu Kanann Brandon Averette fara í vikunni og ljóst að þeir væru í leit að öðrum í hans stað. Hverju liði í Bónus-deildinni er aðeins heimilt að hafa einn Bandaríkjamann innan sinna raða.

Averette samdi við botnlið Ármanns eftir brottförina frá Njarðvík í vikunni.

Hans sæti tekur Luwane Pipkins sem er þrítugur bakvörður. Hann er víðförull og hefur auk Grikklands spilað körfubolta í Tyrklandi, Slóvakíu, Tékklandi, Georgíu, Norður-Makedóníu og Portúgal.

Ísland bætist nú á þann lista og bera Njarðvíkingar miklar væntingar til Pipkins en þeir þurfa sannarlega á styrkingu að halda eftir strembið tímabil það sem af er. Njarðvík situr í tíunda sæti Bónus-deildarinnar með átta stig, aðeins tveimur frá fallsæti.

Þór Þorlákshöfn er jafnt Njarðvík að stigum sæti ofar, en ÍA er með sex stig og Ármann fjögur á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×