Enski boltinn

Dyche æfur eftir tapið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dyche hugsar sig tvisvar um áður en hann veitir ákveðnum leikmönnum tækifæri með liði sínu næst.
Dyche hugsar sig tvisvar um áður en hann veitir ákveðnum leikmönnum tækifæri með liði sínu næst. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Sean Dyche, þjálfari Nottingham Forest, var óánægður með tap sinna manna fyrir B-deildarliði Wrexham í ensku bikarkeppninni í fótbolta í gær.

Wrexham vann leik gærkvöldsins eftir vítaspyrnukeppni en velska liðið hafði verið með yfirhöndina lengi vel; komst bæði 2-0 og 3-1 yfir í leiknum, sem lauk 3-3 áður en vítakeppnin tók við.

Dyche gaf þónokkrum leikmönnum tækifæri til að spila sem hafa verið í minna hlutverki og líkt og sjá mátti á 2-0 stöðunni í hléi gekk þeim illa að grípa þann séns. Dyche gerði þrefalda skiptingu í hálfleik.

„Fyrri hálfleikur var óásættanlegur. Leikmennirnir vita það og þeir þurfa að líta í spegil. Þeir sem komu inn á í hálfleik eiga hrós skilið. Þá litum við út eins og úrvalsdeildarlið,“ sagði Dyche sem skipti Callum Hudson-Odoi inn á eftir hléið og sá skoraði tvö mörk til að jafna leikinn 3-3.

Dyche sendi þá skýr skilaboð til þeirra minni spámanna sem fengu sénsinn í gær.

„Þessir leikmenn banka upp á hjá manni og spyrja: „Hvers vegna fæ ég ekki að spila?“. Svarið við þeirri spurningu liggur fyrir hjá nokkrum eftir kvöldið, ef ekki öllum. Við þurfum að gera breytingar vegna álags. Það er ljóst að þeir munu ekki banka upp á hjá mér á næstunni til að spyrja aftur hvers vegna þeir fái ekki að spila,“ sagði Dyche.

Wrexham er í eigu leikaranna Ryan Reynolds og Rob Mac. Félagið hefur þotist upp deildirnar ensku í eigendatíð þeirra, þrjár á síðustu þremur árum, og stefnan sett hærra.

Ákveðin varða náðist með sigri gærkvöldsins en Wrexham vann í gær úrvalsdeildarlið í fyrsta sinn frá árinu 1999, þegar liðið sló Middlesbrough út á sama stað í FA-bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×