Fótbolti

Norð­menn bjart­sýnir á að Haaland færi þeim HM-titil

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland raðaði inn mörkum fyrir Noreg í undankeppni HM.
Erling Haaland raðaði inn mörkum fyrir Noreg í undankeppni HM. Getty

Þó að Noregur sé í níunda sæti hjá veðbönkum yfir líklegustu liðin til að vinna HM karla í fótbolta í næsta sumar þá er norska þjóðin ansi bjartsýn á að Erling Haaland og félagar verði heimsmeistarar.

Norðmenn hafa á að skipa spennandi liði, sérstaklega fram á við, með menn á borð við Haaland, Martin Ödegaard, Oscar Bobb, Alexander Sörloth og Jörgen Strand Larsen innanborðs.

Norska þjóðin, og þá sérstaklega unga fólkið, gerir sér vonir um að þetta lið geti náð langt í Ameríku næsta sumar. Áhuginn er mikill, enda Noregur ekki komist á HM síðan árið 1998, og hafa 22.000 Norðmenn sótt um miða á leiki liðsins, samkvæmt norska knattspyrnusambandinu.

Dagbladet í Noregi greinir frá því að samkvæmt könnun telji 28% Norðmanna að Noregur gæti unnið HM næsta sumar. Um 59% svaraði þó neitandi og 14% tóku ekki afstöðu. Bjartsýnin er enn meiri á meðal ungsfólks því að 39% þeirra sem eru undir 30 ára aldri telja að Noregur gæti landað titlinum. 

„Þetta er nú í jákvæðara lagi en við erum þakklátir fyrir trúna sem fólk hefur og ætlum að gera okkar besta,“ sagði Ståle Solbakken, landsliðsþjálfari Noregs.

Noregur vann alla átta leiki sína í undankeppni HM, meðal annars tvo þriggja marka sigra gegn Ítölum, og endaði með markatöluna 37-5. Haaland varð langmarkahæstur í undankeppninni með 16 mörk, tvöfalt fleiri en næstu menn.

Á HM ferða Norðmenn í strembnum riðli með Frakklandi og Senegal, auk sigurvegara úr umspili sem Írak, Bólivía og Súrínam spila í. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×