Fótbolti

Roddarinn á­nægður með brott­rekstur Nancy: „Farinn á pöbbinn að fagna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Rod Stewart er einn þekktasti stuðningsmaður Celtic.
Sir Rod Stewart er einn þekktasti stuðningsmaður Celtic. getty/Ian MacNicol

Sir Rod Stewart réði sér ekki fyrir kæti þegar fréttirnar af brottrekstri Wilfrieds Nancy frá Celtic bárust.

Eftir aðeins 33 daga í starfi og hafa einungis stýrt Celtic í átta leikjum var Nancy rekinn frá skoska félaginu í gær.

„Hann er farinn! Hann er farinn!“ hrópaði Stewart í myndbandi þar sem hann brást við tíðindunum frá skosku höfuðborginni.

„Wilfried Nancy hefur verið rekinn eða fór. Mér er alveg sama. Hann er ekki lengur hjá Celtic. Við mætum Dundee United um helgina. Ég mæti, ekki hafa áhyggjur af því.“

Roddarinn kvaðst vilja fá Martin O'Neill við stjórnvölinn hjá Celtic og gamli rámur var bænheyrður því hann stýrir Celtic nefnilega út tímabilið. O'Neill var stjóri Celtic á árunum 2000-05 og stýrði liðinu svo í átta leikjum eftir að Brendan Rodgers hætti hjá því í lok október í fyrra. Celtic vann sjö þeirra.

„Við þurfum að fá þig til baka, Martin O'Neill. Komdu okkur í gegnum tímabilið og svo getum við kannski fengið Robbie Keane. Það yrði himnasending,“ sagði Stewart.

„Núna er ég farinn á pöbbinn til að fagna,“ bætti söngvarinn ástsæli við.

Celtic er í 2. sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, sex stigum á eftir Tómasi Bent Magnússyni og félögum í Hearts.

Celtic hefur orðið skoskur meistari fjórum sinnum í röð og 55 sinnum alls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×