Handbolti

Erfitt að fara fram úr rúminu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Donni hefur glímt við kviðslit um hríð og þarf nú að halda til Danmerkur á meðan félagar hans í landsliðinu fara á EM.
Donni hefur glímt við kviðslit um hríð og þarf nú að halda til Danmerkur á meðan félagar hans í landsliðinu fara á EM. Vísir/Lýður

Kristján Örn Kristjánsson heltist um helgina úr lestinni fyrir komandi Evrópumót í handbolta vegna meiðsla. Hann segir Ísland eiga að stefna hátt á mótinu.

Kristján, eða Donni eins og hann er gjarnan kallaður, hafði glímt við óþægindi um hríð en þó spilað vel fyrir lið sitt Skanderborg í Danmörku. Liðið er óvænt í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og stefnir á Meistaradeild Evrópu að ári.

Donni er að glíma við kviðslit og ljóst var strax á fyrstu æfingu landsliðsins á föstudag að hann væri ekki á leið á EM.

„Þegar þetta var upp á sitt versta var erfitt að stíga fram úr rúminu og vont að hnerra og hósta. Þannig að þetta var leiðindadæmi. Einhvern veginn náði ég að þjösnast í gegnum þetta í tvo mánuði,“ segir Donni.

„Ég var alveg smá undirbúinn fyrir þetta verandi búinn að spila með þetta í tvo og hálfan mánuð. Ég sagði Snorra (Steini Guðjónssyni, landsliðsþjálfara) frá þessu svo við vorum alveg meðvitaðir um þetta.“

Líkt og áður segir entist vonin ekki lengi. Ljóst var á fyrstu æfingu landsliðsins á föstudaginn var að Donni færi ekki á EM.

„Eina vonin mín var að þetta myndi batna aðeins í jólafríinu en svo sáum við þegar ég byrjaði í upphitun og sjúkraþjálfararnir sáu það líka um leið að ég var ekki fær til þess að gefa 100 prósent í þetta. Það er bara það sem þarf þegar maður er í landsliðinu,“

„Þetta er mjög svekkjandi. Þetta er það sem við undirbúum okkur fyrir, allir sem spila með landsliðinu reglulega. Við vitum að janúar er mest spnnandi tíminn á okkar ferlum. Auðvitað var ég undirbúinn en það er svekkjandi að komast bara í eina upphitun og svo búið,“

„Ég er búinn að spila mjög vel og bæta mig mjög mikið. Ég var tilbúinn að sýna það á góða sviðinu,“ segir Donni.

Fleira kemur fram í viðtali við Donna sem má sjá í heild í spilaranum að neðan.

Klippa: Donni ræðir meiðslin og segir landsliðið eiga að stefna hátt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×