Enski boltinn

Annar fram­herji til West Ham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Taty Castellanos á að hjálpa West Ham United í fallbaráttunni.
Taty Castellanos á að hjálpa West Ham United í fallbaráttunni. getty/West Ham United

Argentínski framherjinn Taty Castellanos er genginn í raðir West Ham United frá Lazio.

Castellanos er annar framherjinn sem West Ham kaupir eftir að félagaskiptaglugginn var opnaður á nýársdag. Áður var Brassinn Pablo Felipe kominn frá Gil Vicente í Portúgal.

Hinn 27 ára Castellanos skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við West Ham með möguleika á eins árs framlengingu.

Castellanos gekk til liðs við Lazio 2023. Hann lék 98 leiki fyrir félagið og skoraði 22 mörk. Framherjinn hefur leikið tvo leiki fyrir argentínska landsliðið.

West Ham er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. West Ham tapaði fyrir Wolves, 3-0, á laugardaginn og varð þar með fyrsta liðið til að tapa fyrir Úlfunum á tímabilinu. Hamrarnir hafa ekki unnið í níu leikjum í röð.

West Ham mætir Nottingham Forest á Lundúnaleikvanginum annað kvöld. Forest er í 17. sæti deildarinnar, fjórum stigum á undan West Ham.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×