Lífið

Nyrsta barn ársins fæddist fyrsta dag ársins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ragnar Árnason og Brá Svafarsdóttir með nýjast Grímseyinginn.
Ragnar Árnason og Brá Svafarsdóttir með nýjast Grímseyinginn. Akureyrarbær

Fyrsta barn ársins á Norðurlandi fæddist klukkan 7.09 á nýársdagsmorgun. Barnið er Grímseyingur en Grímsey er nyrsta mannabyggð landsins. Nýbakaðir foreldrar segja enga fleiri íbúa eyjunnar eiga von á barni, svo um er að ræða nyrsta barn ársins. 

Ragnar Árnason og Brá Svafarsdóttir eignuðust sextán marka stúlkubarn á nýársmorgun. Þetta er þeirra fyrsta barn og heilsast mæðgunum vel. 

Fann ástina í Grímsey

Í samtali við fréttastofu segir Ragnar sig telja þetta hafa verið einu óléttuna í eynni. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar bjuggu þar 52 við upphaf síðasta árs. 

„Hún er frá Grímsey, fædd og uppalin þar. En ég er Dalvíkingur. Ég er bara sjómaður sem kom til Grímseyjar og fann ástina,“ segir Ragnar. 

Tóku áramótaskaupið á sjúkrahúsinu

Brá hafi upp á síðkastið dvalið á Svalbarðseyri, enda erfitt að komast á fæðingardeildina á Akureyri frá Grímsey með skömmum fyrirvara. Grímseyjarferjan Sæfari siglir þrjá daga vikunnar og tekur ferðin þrjá klukkutíma. 

„Á gamlársmorgun byrjaði eitthvað að gerast og við förum upp eftir. Við erum send aftur heim en við vorum látin vita að þetta væri farið af stað. Svo var eitthvað meira að gerast þannig við mætum aftur á sjúkrahús,“ segir Ragnar. 

Þau horfðu saman á áramótaskaupið á sjúkrahúsinu og snemma nýársmorgun var stúlkan komin í heiminn. 

Óvíst með áframhaldandi búsetu

„Móður og barni heilsast mjög vel. Lillan er ekkert smá dugleg,“ segir Ragnar. 

Hvort þau haldi áfram búsetu í Grímsey er óvíst, en þar er hvorki leikskóli né grunnskóli. Ragnar segir þau hvergi annarsstaðar vilja búa, svo þau halda í vonina um að skóli verði opnaður í eynni á ný. Ellegar þurfi þau að flytja burt.

„Verja þá sumrinu í Grímsey,“ segir Ragnar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.