Fótbolti

„Að hitta var bara númer eitt, tvö og þrjú“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Kátt í höllinni.
Kátt í höllinni. Pawel Cieslikiewicz

Breiðablik sigraði Shamrock Rovers frá Írlandi 3-1 í sínum fyrsta sigri í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Breiðablik er nú með fimm stig og er næsti leikur gegn Strasbourg í Frakklandi eftir viku.

„Þetta var erfitt, en gaman að skora og gott að klára þetta. Fyrsti sigurinn okkar í deildarkeppninni í Sambandsdeildinni og ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Kristinn Jónsson, leikmaður Breiðabliks, sem gulltryggði sigur liðsins á lokamínútum leiksins.

Klippa: Kristinn eftir sigur Blika gegn Shamrock

Kristinn skoraði í tómt markið á lokamínútum leiksins en boltinn virtist taka heila eilífð að renna í netið.

„Tilfinningin var mjög góð, ég var að pæla í að setja boltann inn á Óla Val sem var held ég aleinn en ákvað síðan að skjóta bara. Að hitta var bara númer eitt, tvö og þrjú þannig ég var ekkert að hamra honum.“

Það er enn von um að komast í útsláttarkeppnina en Blikar þurfa væntanlega sigur í lokaumferðinni gegn Strasbourg í Frakklandi.

„Það er hrikalega gott að taka fyrsta sigurinn og við erum núna að spila upp á eitthvað í Frakklandi. Það verður hrikalega erfiður leikur á móti mögulega einu sterkasta liði sem lið frá Íslandi hefur mætt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×