Fótbolti

Sæ­dís og Arna upp­lifðu grát­legt tap í Meistara­deildinni

Aron Guðmundsson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir í leik með  Vålerenga
Sædís Rún Heiðarsdóttir í leik með Vålerenga Vísir/Getty

Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir máttu þola grátlegt tap með liði sínu Vålerenga gegn Paris í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Lokatölur 1-0 sigur Parísar. 

Stöllurnar úr íslenska landsliðinu voru báðar í byrjunarliði Vålerenga í kvöld en liðið þurfti að spila einum manni færri allan seinni hálfleikinn eftir að Karina Sævik lét reka sig af velli undir lok fyrri hálfleiks með rautt spjald. 

Vålerenga sýndi þó mikið baráttuþrek í leiknum og virtust ætla að ná að hanga á stiginu sem fæst fyrir jafntefli en þegar komið var fram í síðustu tíu mínútur leiksins var vítaspyrna dæmd eftir að boltinn hafði farið í höndina á Söru Hörte, leikamanni Vålerenga. 

Lorena Azzaro tók vítaspyrnuna fyrir Paris og skoraði af miklu öryggi fram hjá Tove Enblom sem stóð í marki Vålerenga. 

Reyndist þetta sigurmark leiksins, grátlegt tap fyrir Vålerenga á heimavelli. Liðið er sem stendur í 13.sæti Meistaradeildarinnar með fjögur stig eftir fimm leiki, einu stigi frá umspilssæti. Paris er í tíunda sæti með átta stig. 

Á sama tíma vann Barcelona 3-1 sigur á Benfica. Hin pólska Ewa Pajor kom Börsungum á bragðið með fyrsta marki leiksins á 29.mínútu og mörk frá Christy Ucheibe og Alexiu Putellas innsigluðu sigur Barcelona. Chandra Davidson skoraði mark Benfica. 

Með sigrinum tyllir Barcelona sér á topp Meistaradeildarinnar, þar er liðið með þrettán stig og þriggja stiga forskot á liðin fyrir neðan sig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×