Enski boltinn

Fyrrum eig­andi Liverpool látinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tom Hicks (til hægri) og George Gillett.
Tom Hicks (til hægri) og George Gillett. Mynd/AFP

Bandaríski fjárfestirinn Tom Hicks, fyrrum eigandi Liverpool á Englandi, er látinn 79 ára að aldri.

Hicks lést í gær í Dallas, umkringdur fjölskyldunni sinni, eftir því sem kemur fram í yfirlýsingu frá fjölmiðlafulltrúa Hicks.

Hicks var mikill íþróttaáhugamaður og fjárfesti umtalsvert í þeim. Hann var eigandi Dallas Stars í NFL-deildinni í íshokkí á árunum 1995 til 2011 og Texas Rangers í MLB-deildinni í hafnabolta frá 1998 til 2010.

„Að vera við hlið hans snerist alltaf um meira en bara íþróttir og leikvanga,“ sagði Jerry Jones, eigandi Dallas Cowboys, í yfirlýsingu.

„Það snerist um persónulega virðingu, traust og vináttu. Við ferðuðumst margar mílur saman og ég mun sakna hans sárt. Ég votta fjölskyldu hans mína innilegustu samúð,“ sagði Jones enn fremur um vin sinn Hicks.

Hicks átti þá einnig enska fótboltafélagið Liverpool um tíma ásamt George Gillett. Þeir félagar keyptu Liverpool af John Moores árið 2007.

Þeir voru umdeildir og heldur óvinsælir í eigendatíð sinni enda hafði fjármálahrunið árið 2008 slæm áhrif á fjárhagsstöðu beggja.

Þeir seldu félagið í október 2010 til New England Sports Ventures, sem leitt var af John W. Henry, og hefur Liverpool haldist í þeirri eigu síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×