Fótbolti

Verðið á Rice sjaldan rætt: „Þá veistu að þú ert að gera eitt­hvað rétt“

Sindri Sverrisson skrifar
Declan Rice var valinn maður leiksins gegn Bayern í gær.
Declan Rice var valinn maður leiksins gegn Bayern í gær. Getty/Richard Heathcote

Declan Rice er einn mikilvægasti leikmaðurinn á bakvið velgengni Arsenal sem trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og Meistaradeildar Evrópu. Þessi 26 ára miðjumaður var til umræðu í Meistaradeildarmörkunum í gærkvöld.

Rice var valinn maður leiksins í 3-1 sigrinum í stórleiknum gegn Bayern í Meistaradeildinni í gær. Eftir þann sigur er Arsenal eina liðið með fullt hús stiga í keppninni, eftir fimm umferðir.

Klippa: Alltaf hægt að stóla á Declan Rice

Arsenal keypti Rice frá West Ham fyrir rúmum tveimur árum, fyrir 100 milljónir punda auk fimm milljóna punda í viðbótargreiðslum.

„Það eru ekki margir menn í heiminum sem eru keyptir á svona gífurlega mikinn pening og það er eiginlega aldrei fjallað um verðið á þeim. Þá veistu að þú ert að gera eitthvað rétt.

Hann spilar alla leiki, alltaf níutíu mínútur, er alltaf fit. Þetta er kannski það sem við eigum sameiginlegt, alltaf heilir og alltaf klárir,“ sagði Aron Jóhannsson léttur í Meistaradeildarmörkunum.

„Þetta er gæi sem þú vilt hafa með þér á miðjunni. Hann er alltaf tilbúinn í allt,“ sagði Aron en umræðuna má sjá hér að ofan.

„Hann er frábær leikmaður,“ tók Sigurbjörn Hreiðarsson undir og hélt áfram: „Svo er annað með Arsenal-liðið, þeir eru í góðu standi og svo ofboðslega líkamlega sterkt lið. Hafsentarnir, Calafiori, Declan Rice, Gyökeres þegar hann er með… Þeir eru með svo stóra og öfluga leikmenn, góða í fótbolta og í góðu standi. Þeir eru með ofboðslegt keppnislið, sem þeir hafa kannski ekki verið með síðustu ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×