Enski boltinn

Cunha gat ekki kveikt á jólaljósunum vegna slyss á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matheus Cunha gæti mögulega misst af leik Manchester United á móti Everton vegna meiðsla en United hefur samt ekki staðfest neitt um það.
Matheus Cunha gæti mögulega misst af leik Manchester United á móti Everton vegna meiðsla en United hefur samt ekki staðfest neitt um það. Getty/Alex Pantling

Manchester United-stjarnan Matheus Cunha meiddist á æfingu liðsins en það sem var óvenjulegt var hvernig það fréttist.

Cunha átti að mæta til að kveikja á jólaljósunum í Altrincham en afboðaði sig. Ástæðan var slys á æfingu og það vakti áhyggjur meðal stuðningsmanna um að hann hefði meiðst illa.

Brasilíski sóknarmaðurinn átti að vera viðstaddur viðburðinn ásamt leikaranum Sam Aston, sem leikur Chesney í Coronation Street, í gærkvöldi, aðeins tveimur dögum áður en United tekur á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir hátíðarhöldin, sögðu skipuleggjendur Visit Altrincham í færslu á Facebook að Cunha myndi ekki mæta „af læknisfræðilegum ástæðum“ þar sem leikmaðurinn „lenti í slysi á æfingu“.

Manchester United hefur ekki enn staðfest frekari upplýsingar opinberlega eða hvort þetta muni hafa áhrif á þátttöku Cunha í leiknum gegn Everton.

Heimildarmenn breska ríkisútvarpsins innan félagsins gerðu síðar lítið úr ótta um að Cunha gæti verið fjarverandi í lengri tíma.

Þeir sögðu að Brasilíumaðurinn hefði fengið högg á æfingu en að málið væri talið minniháttar.

Cunha skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í 4-2 sigri á Brighton í október og spilaði í báðum vináttuleikjum Brasilíu í nýafstöðnu landsleikjahléi.

Á föstudag staðfesti aðalþjálfarinn Amorim að framherjinn Benjamin Sesko yrði frá keppni fram í miðjan næsta mánuð vegna hnémeiðsla. Ef Cunha verður ekki leikfær fyrir leikinn á mánudag myndi það neyða Amorim til að gera miklar breytingar.

Mason Mount kæmi til greina, en Kobbie Mainoo og Joshua Zirkzee gætu einnig verið kallaðir inn í byrjunarlið Amorim í fyrsta sinn á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×