Enski boltinn

Lofar að fara spar­lega með Isak

Sindri Sverrisson skrifar
Alexander Isak hefur átt erfitt haust eftir að hann missti af undirbúningstímabilinu, í frystikistu hjá Newcastle á meðan samið var um söluverð við Liverpool.
Alexander Isak hefur átt erfitt haust eftir að hann missti af undirbúningstímabilinu, í frystikistu hjá Newcastle á meðan samið var um söluverð við Liverpool. Getty/Michael Campanella

Graham Potter hefur valið sitt fyrsta byrjunarlið sem landsliðsþjálfari Svía í fótbolta, fyrir leikinn við Sviss í undankeppni HM í fótbolta í kvöld. Flestar helstu stjörnur Svía vantar í liðið.

Potter tók við sænska liðinu af Jon Dahl Tomasson í síðasta mánuði, eftir að hafa síðast verið stjóri West Ham í ensku úrvalsdeildinni.

Sex breytingar eru á fyrsta byrjunarliði Potters, frá því sem Tomasson notaði, en fyrir því eru ýmsar ástæður.

Viktor Gyökeres og Dejan Kulusevski stóðu ekki til boða vegna meiðsla, og þeir Lucas Bergvall og Hugo Larsson urðu að draga sig úr sænska hópnum vegna meiðsla. Fyrirliðinn Victor Lindelöf er einnig að glíma við meiðsli.

Isak til taks í kvöld

Þá kveðst Potter ætla að fara varlega með Liverpool-framherjann Alexander Isak:

„Hann hefur átt góða viku. Hann er til taks en við verðum að vera skynsamir því hann hefur verið talsvert frá keppni. Hann er ekki klár í að spila tvo 90 mínútna leiki,“ sagði Potter á blaðamannafundi í gær.

Samkvæmt Fotbollskanalen kemur Mattias Svanberg, leikmaður Wolfsburg, óvænt inn í byrjunarliðið í kvöld eftir að hafa ekki verið í hóp hjá Tomasson.

Byrjunarlið Svía í kvöld: Viktor Johansson – Emil Holm, Isak Hien, Gustaf Lagerbielke, Daniel Svensson – Alexander Bernhardsson, Yasin Ayari, Jesper Karlström, Anthony Elanga – Mattias Svanberg, Benjamin Nygren.

Svíar eru aðeins með eitt stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum í undankeppninni og því nánast öruggt að þeir nái ekki upp í 2. sæti riðilsins. Þeir eiga hins vegar öruggt sæti í HM-umspilinu í mars vegna þess að þeir unnu sinn riðil í C-deild Þjóðadeildarinnar á síðustu leiktíð.

Leikur Sviss og Svíþjóðar er í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay klukkan 19:45 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×