Handbolti

Haukar við toppinn og HM-farar fögnuðu á Sel­fossi

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðskonan Alfa Brá Hagalín er lykilmaður í liði Fram og á leið á HM.
Landsliðskonan Alfa Brá Hagalín er lykilmaður í liði Fram og á leið á HM.

Fram færði sig upp fyrir Hauka í 5. sæti Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld, með sigri á Selfossi, og Haukar eru við toppinn í Olís-deild karla eftir sigur á nýliðum Þórs frá Akureyri.

Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín og Katrín Anna Ásmundsdóttir, sem fyrr í dag voru valdar í HM-hóp Íslands sem brátt heldur til Þýskalands, gátu áfram glaðst í kvöld með 29-27 útisigri Fram gegn Selfossi. Þær eru á leið á sitt fyrsta HM.

Framkonur voru 16-13 yfir í hálfleik og virtust svo hafa stungið af í seinni hálfleiknum, þegar þær náðu átta marka forskoti, en heimakonur gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar enn voru tvær og hálf mínúta eftir. Fleiri mörk voru hins vegar ekki skoruð.

Alfa Brá og Dagmar Guðrún Pálsdóttir voru markahæstar hjá Fram með átta mörk en Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði fimm og Katrín Anna þrjú. Hjá Selfossi var Hulda Dís Þrastardóttir markahæst með sex mörk en Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir skoruðu fimm mörk hver og Mia Kristin Syverud fjögur.

Þórsarar aldrei langt undan

Haukar jöfnuðu Aftureldingu að stigum á toppi Olís-deildar karla í kvöld og eru liðin með 14 stig hvort eftir níu leiki. Þórsarar eru með sex stig í tíunda sæti.

Hergeir Grímsson skoraði sex mörk í kvöld.Haukar

Haukar höfðu frumkvæðið allan leikinn en gestirnir frá Akureyri voru aldrei langt undan og náðu til að mynda að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var eftir, fyrst í 29-28 og svo aftur í 30-29. Haukarnir voru hins vegar sterkari á lokasprettinum og unnu 35-31.

Skarphéðinn Ívar Einarsson var markahæstur hjá Haukum með sjö mörk og þeir Hergeir Grímsson og Birkir Snær Steinsson skoruðu sex mörk hvor. Hjá Þór var Brynjar Hólm Grétarsson markahæstur með átta mörk, Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði sjö og Oddur Gretarsson sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×