Fótbolti

Ronaldo út­skýrir skrópið sitt í jarðar­för Diogo Jota

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Diogo Jota saman á Evrópumótinu 2024
Cristiano Ronaldo og Diogo Jota saman á Evrópumótinu 2024 Getty/Jose Breton/

Portúgalski landsliðsmaðurinn Diogo Jota lést í bílslysi í sumar og næstum því allir liðsfélagar hans í landsliðinu mættu í jarðarförina. Sá frægasti af þeim var þó hvergi sjáanlegur. Í nýju viðtali útskýrir Cristiano Ronaldo hvers vegna hann fór ekki í jarðarför Jota.

Ronaldo segir að hann hafi ekki farið í jarðarför Diogo Jota til að forðast að breyta henni í „sirkus“.

Ronaldo sagði Piers Morgan hvers vegna hann mætti ekki og sagði: „Tvennt; fólk gagnrýnir mig mikið. Mér er sama um það. Þegar samviska þín er hrein og góð þarftu ekki að hafa áhyggjur af því hvað fólk segir,“ sagði Cristiano Ronaldo.

„En eitt af því sem ég geri ekki? Eftir að faðir minn dó hef ég aldrei farið í kirkjugarð aftur. Þegar þú þekkir mig og þú þekkir orðspor mitt? Hvert sem ég fer verður allt að sirkus,“ sagði Ronaldo.

„Ég fer ekki út því ef ég fer beinist athyglin að mér. Ég vil ekki svona athygli. Mér líkar ekki þegar maður fer á viðkvæma stund til að fara í viðtöl, til að tala um hann, til að tala um fótbolta,“ sagði Ronaldo.

„Þetta sýnir hversu mikið lífið er stundum sirkus. Ég er ekki hluti af því. Ef þú vilt vera hluti af þessum heimi, gangi þér vel, en ég mun vera hluti af annarri hlið,“ sagði Ronaldo.

„Fólk getur haldið áfram að gagnrýna. Mér leið vel með ákvörðun mína.“

Jota lék 49 landsleiki fyrir þjóð sína og vann Þjóðadeildina tvisvar. Hann vann einnig ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn og deildabikarinn með Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×