Fótbolti

Þjálfari Alberts rekinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stefano Pioli hefur verið rekinn úr starfi þrisvar á rúmlega einu ári, frá AC Milan, Al-Nassr og nú Fiorentina. 
Stefano Pioli hefur verið rekinn úr starfi þrisvar á rúmlega einu ári, frá AC Milan, Al-Nassr og nú Fiorentina.  Jonathan Moscrop/Getty Images

Stefano Pioli hefur verið látinn fara úr þjálfarastarfinu hjá Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni, þar sem liðið er án sigurs eftir tíu umferðir. Daniele Gallopa mun þjálfa Albert Guðmundsson og félaga meðan leitað er að eftirmanni.

Pioli tók við Fiorentina í annað sinn í sumar en hann hafði áður þjálfað liðið frá 2017-19. Undir hans stjórn hefur liðið ekki unnið deildarleik, gert fjögur jafntefli og tapað sex sinnum í fyrstu tíu umferðunum. 

Fiorentina er í neðsta sæti deildarinnar en hefur hins vegar gengið vel í Sambandsdeildinni og er í efsta sæti þar með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.

Pioli reyndi að hrista upp í hlutunum um helgina og setti Albert Guðmundsson, meðal annarra, á varamannabekkinn. Það bar ekki árangur og 0-1 tap gegn Lecce varð niðurstaðan.

Pioli var látinn taka poka sinn í morgun en æfingu liðsins var frestað á meðan gengið var frá starfslokasamningnum. Nú hefur brottreksturinn verið staðfestur og Daniele Gallopa, þjálfari úr akademíu Fiorentina, mun stýra æfingu liðsins síðdegis.

Leitin að eftirmanni er hafin en ítalski skúbbarinn Nicolo Schira nefnir tvo líklega arftaka, þá Roberto D‘Aversa og Paolo Vanoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×