Fótbolti

Kóngarnir í Fær­eyjum: Töpuðu ekki leik allt tíma­bilið

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn KÍ fögnuðu vel og innilega í kvöld eftir að hafa orðið tvöfaldir meistarar.
Leikmenn KÍ fögnuðu vel og innilega í kvöld eftir að hafa orðið tvöfaldir meistarar. Skjáskot/@klaksvikaritrottarfelag

Leikmenn KÍ frá Klakksvík í Færeyjum tryggðu sér í kvöld bikarmeistaratitilinn og eru þar með tvöfaldir meistarar. Það sem gerir afrek þeirra enn merkara er að þeir töpuðu ekki einum einasta leik í færeyska fótboltanum í ár.

KÍ vann Víking 2-0 í bikarúrslitaleiknum í kvöld þar sem Mads Boe Mikkelsen og Páll Klettskarð skoruðu mörkin.

Þar með var tímabilið fullkomnað. Liðið hafði nefnilega áður unnið Betri deildina án þess að tapa leik, í 27 umferðum. Liðið hlaut 73 stig eftir að hafa unnið 23 leiki og gert fjögur jafntefli, og endað níu stigum á undan HB Þórshöfn.

KÍ komst einnig í gegnum fyrstu tvær umferðirnar í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu og tapaði ekki leik í þeim einvígum en í 3. umferðinni kom eina tap liðsins á árinu, gegn hvítrússneska liðinu Neman Grodno í Szeged í Ungverjalandi. KÍ hafði unnið fyrri leikinn á heimavelli 2-0 en fékk á sig tvö mörk á síðustu tíu mínútunum í Szeged og tapaði í kjölfarið í vítaspyrnukeppni og féll úr leik.

Í þessu sigursæla liði KÍ eru að minnsta kosti þrír leikmenn sem spilað hafa með íslenskum liðum. 

Framherjinn Patrik Johannesen lék með Keflavík og Breiðabliki þar til hann fór til KÍ síðasta vetur, og hann skoraði 11 mörk í færeysku deildinni í ár. Hallur Hansson var hjá KR sumarið 2022 en meiddist svo illa um haustið og fór í kjölfarið til KÍ. René Joensen var svo hjá Grindavík og spilaði með liðinu á árunum 2017-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×