Fótbolti

Benítez orðinn stjóri Sverris og sprengir launaskalann

Sindri Sverrisson skrifar
Rafa Benítez hefur marga fjöruna sopið sem knattspyrnustjóri.
Rafa Benítez hefur marga fjöruna sopið sem knattspyrnustjóri. Getty/Robbie Jay Barratt

Rafa Benítez, fyrrverandi stjóri stórliða á borð við Liverpool og Real Madrid, hefur verið ráðinn til að stýra gríska stórliðinu Panathinaikos.

Benítez verður þar með stjóri Sverris Inga Ingasonar, landsliðsmiðvarðar, sem verið hefur leikmaður Panathinaikos frá því í fyrrasumar.

Þetta er í annað sinn sem að Benítez tekur við Íslendingaliði því hann var ráðinn stjóri Everton sumarið 2021, þegar Gylfi Þór Sigurðsson var enn leikmaður liðsins en Gylfi var þó tekinn út úr leikmannahópi félagsins áður en hann náði nokkurn tímann að spila undir stjórn Spánverjans.

Sagður fá meira en hálfan milljarð í árslaun

Benítez tekur við Panathinaikos eftir að hafa verið án starfs síðan hann var rekinn frá spænska félaginu Celta Vigo í mars á síðasta ári.

Þessi 65 ára gamli, reynslumikli knattspyrnustjóri er sagður fá hæstu laun í sögu gríska fótboltans, eða um 570 milljónir króna í árslaun.

Benítez tekur við Panathinaikos í 7. sæti grísku úrvalsdeildarinnar, með níu stig eftir sex leiki en leik til góða á önnur lið. PAOK er efst með 17 stig.

Panathinaikos er einnig í Evrópudeildinni, sem Benítez vann með Chelsea árið 2013, og eru Sverrir og félagar þar með þrjú stig eftir þrjá leiki en þeir töpuðu 3-1 fyrir Feyenoord í Hollandi í gær eftir stormasaman dag.

Benítez hefur unnið fleiri titla, meðal annars Meistaradeildina með Liverpool árið 2005 og UEFA-bikarinn 2004 með Valencia, sem og HM félagsliða með Inter 2010, bikarmeistaratitil með Napoli 2014 og ensku B-deildina með Newcastle 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×