Íslenski boltinn

Enginn þjálfari hefur bæði byrjað og klárað Sambandsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson, Halldór Árnason og Arnar Gunnlaugsson hafa allir byrjað Sambandsdeildina án þess að ná að klára hana með liðum sínum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, Halldór Árnason og Arnar Gunnlaugsson hafa allir byrjað Sambandsdeildina án þess að ná að klára hana með liðum sínum. Vísir/Diego/EPA/Jakub Kaczmarczyk/MARTIAL TREZZINI

Breiðablik varð í haust þriðja íslenska liðið til að vinna sér þátttökurétt í aðalhluta Sambandsdeildar Evrópu en líkt og hjá hinum tveimur liðunum á undan þá var gerð þjálfarabreyting í miðjum klíðum.

Halldór Árnason var í gær rekinn sem þjálfari Breiðabliks eftir að liðið tapaði gríðarlega mikilvægum leik á móti Víkingi um helgina. Ólafur Ingi Skúlason tekur við liðinu, stýrir því út keppnina og svo áfram á næsta tímabili.

Blikar eru þegar búnir að spila fyrsta leik sinn í Sambandsdeildinni sem tapaðist 3-0 á móti Lausanne úti í Sviss en næsti leikur er síðan á móti finnska liðinu KuPS á fimmtudaginn.

Halldór sjálfur tók við Blikaliðinu undir svipuðum kringumstæðum en þá hætti Óskar Hrafn Þorvaldsson með liðið og tók við norska liðinu Haugesund.

Blikar voru þá búnir að spila tvo leiki í Sambandsdeildinni, töpuðu 3-2 á móti Maccabi Tel Aviv og 0-1 á móti Zorya Luhansk.

Óskar Hrafn hætti með Blika eftir síðustu umferð Bestu deildarinnar og fyrsti leikur Blika undir stjórn Halldórs var sambandsdeildarleikur á móti belgíska liðinu Gent sem tapaðist 5-0.

Halldór og Blikar hafa tapað öllum leikjum sínum í aðalhluta Sambandsdeildarinnar.

Víkingar komust í Sambandsdeildina í fyrra og skiptu líka um þjálfara í henni, þó mun síðar og eftir að hafa fagnað tveimur sögulegum sigrum.

Arnar Gunnlaugsson hætti með Víkingsliðið til að taka við íslenska landsliðinu en hann hafði þá komið Víkinum áfram í umspilið.

Fyrstu keppnisleikir Víkingsliðsins undir stjórn Sölva voru síðan gegn Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar þar sem Víkingar duttu naumlega út eftir að hafa unnið fyrri leikinn sem spila þurfti í Helsinki í Finnlandi.

Líkt og Halldór hafði verið aðstoðarþjálfari Óskars og fengið stöðuhækkun þá var Sölvi Geir líka aðstoðarmaður Arnars.

Ólafur Ingi Skúlason kemur aftur á móti alveg nýr inn hjá Blikum og það er því eflaust meiri breyting á hlutunum en í tilfelli hinna tveggja. Bæði Halldór og Sölvi breyttu þó talsverðu þegar þeir tóku við.

Þeir Halldór og Sölvi eiga það ekki aðeins sameiginlegt að hafa tekið við liði sínu í miðri Sambandsdeild undanfarin ár heldur tókst þeim síðan báðum að gera liðið sitt að Íslandsmeisturum á fyrsta ári.

Það verður fróðlegt að sjá hvort Ólafi Inga takist einnig að halda í þá hefð og skila Íslandsmeistaratitlinum í hús í Smáranum eftir eitt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×