Enski boltinn

Dyche færist nær Forest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sean Dyche er þrautreyndur stjóri.
Sean Dyche er þrautreyndur stjóri. epa/VINCE MIGNOTT

Margt bendir til þess að Sean Dyche verði næsti knattspyrnustjóri Nottingham Forest. Ange Postecoglou var rekinn frá því í fyrradag.

Forest tapaði 0-3 fyrir Chelsea á City Ground á laugardaginn. Skömmu eftir leik var Postecoglou sagt upp störfum. Hann stýrði Forest aðeins í átta leikjum en liðið vann engan þeirra.

Dyche var fljótlega orðaður við Forest og samkvæmt enskum fjölmiðlum er hann líklegastur til að taka við Nottingham-liðinu.

Góður gangur er í viðræðum Forest og Dyches og BBC greinir frá því að möguleikar hans á að taka við liðinu hafi aukist talsvert.

Forest ræddi einnig við Roberto Mancini og félagið hafði áhuga á Marco Silva en fannst of mikill kostnaður fylgja því að losa hann undan samningi hjá Fulham.

Dyche hefur verið án starfs síðan hann var látinn fara frá Everton í janúar. Hann hóf stjóraferilinn hjá Watford en stýrði svo Burnley í áratug.

Forest er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stig. Næsti leikur liðsins er gegn Bournemouth á útivelli næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×