Íslenski boltinn

Jóhann tekur við Þrótti en Blikar leita á­fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jóhann Kristinn Gunnarsson verður nýr þjálfari Þróttar.
Jóhann Kristinn Gunnarsson verður nýr þjálfari Þróttar. vísir/Anton

Jóhann Kristinn Gunnarsson verður næsti þjálfari kvennaliðs Þróttar í fótbolta, eftir að hafa stýrt liði Þórs/KA síðustu ár.

Samkvæmt upplýsingum Vísis stendur til að tilkynna þetta á morgun, áður en Þróttur mætir svo Val á AVIS-vellinum á laugardaginn í lokaumferð Bestu deildarinnar. 

Fleiri félög munu hafa haft áhuga á Jóhanni, þar á meðal Íslandsmeistarar Breiðabliks, en nú er ljóst að hann fer í Laugardalinn. Leit Blika að arftaka Nik Chamberlain, sem tekur við Kristianstad í Svíþjóð eftir Evrópuleiki Blika í nóvember, heldur hins vegar áfram.

Jóhann tekur við Þrótti af Ólafi Kristjánssyni sem ráðinn hefur verið til KSÍ, meðal annars sem aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. 

Undir stjórn Ólafs endar Þróttur í 3. sæti Bestu deildarinnar í ár, eftir að hafa verið fyrri hluta tímabils í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og svo naumlega tapað baráttunni við FH um 2. sæti, hitt Evrópusætið sem í boði er í deildinni. Reyndar getur Þróttur fræðilega séð enn náð 2. sætinu en til þess þarf 18 marka sveiflu í lokaumferðinni.

Jóhann hefur stýrt Þór/KA undanfarin þrjú ár en liðið endaði í 7. sæti í ár, eftir að hafa endað í 4. sæti í fyrra og 5. sæti árið 2023.

Jóhann hafði áður stýrt Þór/KA í fimm tímabil, þegar hann tók við liðinu haustið 2011, og hann stýrði því til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins sumarið 2012. Þessi fimm ár endaði Þór/KA aldrei neðar en í 4. sæti. Á milli áranna með Þór/KA þjálfaði Jóhann Kristinn karlalið Völsungs heima á Húsavík.

Ekki liggur fyrir hver verður arftaki Jóhanns á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×