Lífið

Plakatarisi og upp­á­halds lista­maður Spielberg allur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Drew Struzan var í miklu uppáhaldi hjá Steven Spielberg og George Lucas og teiknaði plaköt fyrir margar þekktustu og vinsælustu myndir sögunnar.
Drew Struzan var í miklu uppáhaldi hjá Steven Spielberg og George Lucas og teiknaði plaköt fyrir margar þekktustu og vinsælustu myndir sögunnar.

Teiknarinn Drew Struzan, sem gerði mörg frægustu kvikmyndaplaköt allra tíma, er látinn 78 ára að aldri. Hann greindist með Alzheimer fyrir nokkrum árum síðan og hafði hrakað töluvert þegar hann lést.

Greint var frá andláti Struzan á Instagram-síðu teiknarans á þriðjudag.

Struzan fæddist í Oregon-borg í Oregon 18. mars 1947 og menntaði sig í ArtCenter College of Design í Los Angeles. Hann hóf teiknaraferil sinn á áttunda áratugnum við að teikna plötuumslög fyrir tónlistarmenn á borð við Alice Cooper, Bee Gees, Beach Boys, Black Sabbath og Roy Orbison.

Nokkur umslaganna sem Struzan teiknaði.

Samhliða umslagagrð stofnaði Struzan fyrirtækið Pencil Pushers með nokkrum vinum sem þekktu til í Hollywood og hóf árið 1975 að teikna plaköt fyrir kvikmyndir. Framan af voru það ódýrar B-myndir en hann varð fljótt gríðarvinsæll í Hollywood.

Út áttunda og fram eftir níunda áratugnum vann Struzan mörg af þekktusut plakötum sögunnar fyrir myndir á borð við The Muppet Movie, E.T. the Extra-Terrestrial, Blade Runner, First Blood, The Thing, Risky Business, The Goonies, Indiana Jones and the Temple of Doom, Indiana Jones and the Last Crusade og Back to the Future.

Struzan gerði mörg af þekktustu plakötum sögunnar.

Eins og sést á listanum varð Struzan sérstaklega náinn samstarfsmaður bæði George Lucas og Stevens Spielberg, teiknaði plakötin fyrir alla seinni trílógíu Stjörnustríðs (I-III) og fjölda áðurnefndra Spielberg-mynda. Allt í allt teiknaði Struzan rúmlega 150 kvikmyndaplaköt á ferli sínum.

Struzan áritar Óskarsverðlaunaplakat árið 2008.Getty

Struzan var þekktur fyrir dramatískan og litríkan stíl sinn og lagði yfirleitt höfuðáherslu á að koma sem flestum persónum myndanna fyrir á plakötunum. Þá fetaði hann milliveg milli hreinnar eftirlíkingar leikaranna og teiknaðs útlits.

Spielberg lýsti Struzan eitt sinn sem sínum uppáhalds „bíólistamanni“ og honum hafi oft liðið eins og myndir sínar þyrftu að standast gríðarháar væntingarnar sem Struzan hafði sett. Spilberg er einmitt einn fjölmargra sem hefur minnst Struzan eftir andlát hans.

Heimildarmyndin Drew: The Man Behind the Poster (2013) fjallaði um ævi og feril Struzan en hann skilur eftir sig ekkju, son og þónokkur barnabörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.